Sigur númer 64 í höfn

Lindsey Vonn fagnar sigrinum í dag.
Lindsey Vonn fagnar sigrinum í dag. EPA

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn lét sér ekki nægja að slá metið hjá Anne Marie Moser-Pröll yfir flesta sigra í heimsbikarnum. Í dag hélt hún áfram að bæta metið með því að vinna risasvig í St. Moritz í Sviss og það er hennar 64. heimsbikartitill á ferlinum.

Þar með hefur Vonn unnið fimm mót í vetur, í kjölfarið á langvarandi meiðslum. Þetta var hennar síðasta keppni fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Beaver Creek í næstu viku. Í gær varð hún aðeins í 23. sæti í bruni en hristi það af sér í dag.

Ólympíumeistarinn í greininni, Anna Fenningar, varð önnur, 24/100 úr sekúndu á eftir Vonn, og síðan kom Nicole Hosp frá Austurríki, 1,10 sekúndum á eftir þeirri bandarísku.

„Þetta var alls ekki auðveld keppni, enda sáum við hve margar féllu úr keppni. Þetta var mjög mishæðótt braut. Ég varð að vera fljót og um leið taktísk, var alveg við mín ystu mörk, rétt eins og í gær, og nú gekk það upp. Ég var heppin,“ sagði Vonn hógvær eftir mótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert