„Miðar ágætlega í Ríó“

Ólympíuleikvangurinn í Ríó.
Ólympíuleikvangurinn í Ríó. AFP

kris@mbl.is Andri Stefánsson, sviðsstjóri afreksmála hjá ÍSÍ, fór fyrr í mánuðinum til Ríó í Brasilíu og fékk innsýn í hvernig Brasilíumönnum gengur í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana á næsta ári.

„Þessu miðar ágætlega áfram og lítur nokkuð vel út eins og oft áður á þessum tímapunkti. Ólympíuþorpið er komið langleiðina og verður hið glæsilegasta. Brasilíumennirnir munu nýta eitthvað af þeim mannvirkjum sem þeir notuðu vegna Ameríkuleikanna árið 2007. Mikið verk er hins vegar óunnið á sjálfu stór-ólympíusvæðinu sem hýsir megnið af greinunum. Þrjú ólympíusvæði verða í Ríó og því er ýmislegt eftir. Einnig lifa þeir á því að hafa haldið heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu á síðasta ári. Þá var stóri leikvangurinn, Maracanã, tekinn í gegn. Þar verða setningar- og lokaathöfnin,“ sagði Andri þegar Morgunblaðið ræddi við hann um gang mála.

Sú óvenjulegi háttur verður hafður á í Ríó að keppni í frjálsum verður ekki á Ólympíuleikvanginum sjálfum, þ.e.a.s ekki á sama stað og setningar- og lokaathöfn. „Frjálsar verða á öðrum knattspyrnuvelli, João Havelange-leikvanginum, sem er ekki langt frá Maracanã. Yfirleitt fara frjálsar fram á aðal-leikvanginum sem er miðpunktur leikanna og þar hefur ólympíueldurinn logað. Nú liggur ekki fyrir hvar eldurinn mun loga meðan á leikunum stendur og er verið að skoða nokkrar staðsetningar í því sambandi.“

Sjá allt viðtalið við Andra í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert