Áfrýjun aðalstjórnar HK vísað frá

Knattspyrnudeild HK hefur aðsetur í Kórnum í Kópavogi.
Knattspyrnudeild HK hefur aðsetur í Kórnum í Kópavogi. Ljósmynd/KSÍ

Áfrýjunardómstóll Íþróttasambands Íslands vísaði í vikunni frá áfrýjun aðalstjórnar Handknattleiksfélags Kópavogs, vegna máls sem hún tapaði fyrir dómstóli ÍSÍ þegar formaður knattspyrnudeildar félagsins kærði aðalstjórnina fyrir að víkja stjórn deildarinnar frá og taka hana yfir tímabundið.

Þann 20. maí 2014 ákvað aðalstjórn HK að víkja stjórn knattspyrnudeildar félagsins frá og taka yfir stjórn deildarinnar tímabundið.

Þann 27. maí kærði formaður knattspyrnudeildar, Þórir Bergsson, þessa ákvörðun aðalstjórnar félagsins til dómstóls ÍSÍ, og krafðist þess að ákvörðun aðalstjórnar yrði ógilt.

Þann 22. nóvember var málið tekið fyrir af dómstóli ÍSÍ. Niðurstaðan varð sú að dómstóllinn úrskurðaði Þóri í hag og ógilti þá ákvörðun aðalstjórnar HK að víkja stjórn knattspyrnudeildar frá.

Úrskurður dómstóls ÍSÍ.

Aðalstjórn HK og stjórn knattspyrnudeildar félagsins, sem var formlega tekin við á ný með niðurstöðu dómsins 22. nóvember, gerðu í framhaldi af honum með sér sátt um að Þórir og upphafleg stjórn knattspyrnudeildar myndi víkja og nýskipuð bráðabirgðastjórn deildarinnar myndi sitja fram að næsta aðalfundi.

Aðalstjórn HK áfrýjaði samt niðurstöðunni til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Hann tók áfrýjunina fyrir 23. febrúar og féllst á þá kröfu Þóris að vísa henni frá dómi. Sú niðurstaða er skýrð með því að aðilar hefðu gert með sér bindandi samkomulag og mótbárur aðalstjórnar HK um að brotið hefði verið gegn sáttinni væru haldlausar.

Úrskurður áfrýjunardómstóls ÍSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert