SR og SA leika til úrslita

Frá viðureign SR og Bjarnarins sem stendur yfir í Laugardal.
Frá viðureign SR og Bjarnarins sem stendur yfir í Laugardal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það verða Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur sem leika til úrslita á Íslandsmóti karla í íshokkí þetta árið en það varð ljóst í næstsíðustu umferðinni í kvöld.

SA lenti tvívegis undir gegn Esju norðan heiða en tókst að lokum að vinna 3:2 sigur og er með 44 stig á toppi deildarinnar. SR er með 42 stig eftir að hafa unnið Björninn 4:1 en þar með eru vonir Bjarnarins, sem er með 36 stig, úr sögunni. Esja er með 16 stig á botni deildarinnar en tvö efstu liðin leika til úrslita.

Fylgst var með gangi mála í leikjum kvöldsins hér á mbl.is: 

Ak­ur­eyri kl 21:37. Leiknum er lokið á Akureyri. SA mun mæta SR á Akureyri næsta laugardag í hreinum úrslitaleik um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Ak­ur­eyri kl 21:28. MARK! 3:2 Heimamenn í SA komast yfir. Ingþór Árnason ýtir pökknum yfir línuna eftir mikinn hamagang fyrir framan mark Esjunnar. SA heldur sér á toppnum ef þessi verða úrslitin. Fimm mínútur eru eftir af leiknum.

Laugardalur kl 21:28. Leiknum er lokið. SR sigraði 4:1 og tæplega 500 áhorfendur láta vel í sér heyra í Skautahöllinni. 

Ak­ur­eyri kl 21:18. MARK! 2:2 Ingólfur Elíasson, af öllum mönnum, jafnar leikinn fyrir SA með hörkuskoti frá bláu línunni. Akureyringar ætla ekki að láta toppsætið ganga sér úr greipum. Annars voru leikmenn Esju búnir að vera grimmari í byrjun þriðja leikhlutans. Nú eru níu mínútur eftir.

Laugardalur kl 21:14. Mark! Staðan er 4:1 fyrir SR. SR-ingar eru að tryggja sér og Akureyringum sæti í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Samúel Krakaver skoraði eftir fyrirgjöf frá Jóni Óskarssyni á 53. mínútu. 

Laugardalur kl 21:10. Mark! Staðan er 3:1 fyrir SR. Markið kemur á 51. mínútu. Bjarnarmenn hafa níu mínútur til að skora þrjú mörk og halda lífi í þeirri von um að komast í úrslitakeppnina. Svíinn Victor Andersson lét vaða á markið af löngu færi og Arnþór Bjarnason kom pökknum í netið af stuttu færi. 

Laugardalur kl 21:00. Staðan er 2:1 fyrir SR. Fimm mínútur liðnar af síðasta leikhluta. SR hafa verið beittari. Bæði liðin voru að missa menn út af og nú eru fjórir á móti fjórum næstu tvær mínúturnar. 

Ak­ur­eyri kl 20:50. Öðrum leikhluta er lokið. Það er með ólíkindum að leikmenn hafi ekki bætt við mörkum. Heimamenn í hafa SA dritað skotum á mark Esjunnar. Ef þetta verða úrslit kvöldsins gætu Akureyringar misst toppsætið yfir til SR.

Laugardalur kl 20:36. Staðan er 2:1 fyrir SR fyrir síðasta leikhlutann. Allt opið í þessum leik en Björninn verður að vinna til að eiga möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. 

Laugardalur kl 20:31. Mark! Staðan er 2:1 fyrir SR. Lars Föder er búinn að minnka muninn fyrir Björninn á 38. mínútu. Grafarvogsbúar höfðu sótt í sig veðrið og Brynjar Bergmann brenndi af dauðafæri á 35. mínútu. Í millitíðinni skaut hins vegar gamla brýnið Arnþór Bjarnason í stöngina á marki Bjarnarins. 

Laugardalur kl 20:21. Mark! Staðan er 2:0 fyrir SR. Aftur skoraði Miloslav Racansky eftir stoðsendingu frá Robbie Sigurdssyni. SR fékk skyndisókn og Robbie gaf frábæra sendingu fyrir markið og Tékkinn stýrði pökknum í netið af stuttu færi. Nú reynir á þolrifin í Bjarnarmönnum. Geta þeir komið til baka eftir þetta? Ef ekki þá er tímabilinu lokið hjá þeim án þess að komast í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í mörg ár. 

Laugardalur kl 20:12. Mark! Staðan er 1:0 fyrir SR. Miloslav Racansky þrumaði pökknum upp í hornið. Eftir dómarakast gaf Robbie Sigurdsson stutta sendingu á Tékkann sem hikaði hvergi og kom SR yfir á 26. mínútu. 

Laugardalur kl 20:08. Annar leikhluti er hafinn. Fjórar mínútur liðnar og staðan er enn markalaus. SR-ingar byrjuðu annan leikhluta með látum og Robbie Sigurdsson átti stangarskot á upphafsmínútunni. Vallarþulurinn Bjarni „Töframaður“ lét áhorfendur vita af stöðunni fyrir norðan, 2:1 fyrir Esju. Yrðu það úrslit leiksins opnast möguleiki fyrir Björninn að hleypta toppbaráttunni upp fyrir lokaumferðina. En til þess þurfa Bjarnarmenn að vinna í kvöld. 

Ak­ur­eyri kl 20:04. Fyrsta leikhluta er lokið og leiða Esjumenn 1:2.

Ak­ur­eyri kl. 20.00. MARK! 1:2 Esja kemst aftur yfir. Sturla Snorra­son skorar eftir slæm mistök í vörn SA.

Akureyri kl 19:55. MARK! 1:1 Ben Dimarco jafnar leikinn eftir laglegt spil.

Akureyri kl. 19.49. MARK! 0:1 Esja skorar fyrsta markið. Sturla Snorrason er þar að verki.

Akureyri kl. 19:47. Staðan á Akureyri eftir 8 mínútur er 0:0 en heimamenn sækja mun meira.

Laugardalur kl 19:48. Staðan er 0:0. Fyrsta leikhluta er lokið. Baráttan var fyrirferðarmest í fyrsta leikhlutanum og svolítið stress í mönnum enda úrslitakeppnin í húfi. Fá góð marktækifæri litu dagsins ljós. 

Laugardalur kl 19:41. Staðan er 0:0 þegar 4 mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. Björninn missti mann út af en SR tókst ekki að nýta sér það. Skömmu síðar komst Kristján Kristinsson upp að marki SR vinstra megin en Ævar Þór Björnsson markvörður sá við honum. Björninn er nú manni færri í annað sinn en Sigursteinn Sighvatsson fékk 2 mínútna brottvísun. 

Akureyri kl 19:30. Flautað til leiks SA og Esjunnar í Skautahöllinni á Akureyri. 

Laugardalur kl 19:32. Staðan er 0:0. 10 mínútur liðnar. SR missti Styrmi út af í 2 mínútur en „power play“ Bjarnarins var stirt og liðið skapaði sér ekki almennilegt marktækifæri manni fleiri. 

Laugardalur kl 19:25. Leikur SR og Bjarnarins er hafinn. Fimm mínútur liðnar. Ekkert dauðafæri á upphafsmínútunum. 

Kl 19:12 Óhætt er að reikna með spennandi leik á milli liðanna í kvöld í ljósi þess að síðustu fjórir leikir á milli þeirra í deildinni hafa farið í framlengingu. 

Kl 19:10 Björninn þarf nauðsynlega á sigri að halda í leiknum í kvöld. Vinni SR þá eru SA og SR örugg um sæti í úrslitarimmunni. 

Kl 19:00 Leikur SR og Bjarnarins hefst í Skautahöllinni í Laugardal klukkan 19:15 en ekki klukkan 19:00 eins og fyrirhugað var. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert