Sætur sigur í vítakeppni

Edmunds Induss skoraði tvö af mörkum íslenska U18 ára landsliðsins …
Edmunds Induss skoraði tvö af mörkum íslenska U18 ára landsliðsins í sigri á Mexíkó á HM í morgun. Kristinn Ingvarsson

Íslenska landsliðið í íshokkí karla, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann í morgun lið Mexíkó eftir framlengdan leik og vítakeppni í A-riðli 3. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer í Taívan. Þar með hefur íslenska liðið unnið þrjá fyrstu leiki sína í mótinu og situr í efsta sæti. 

Sigurinn í morgun var afar sætur. Jafnt var eftir venjulega leiktíma, 2:2 en áður hafði íslenska liðið lent 0:1 og 1:2 undir. Elvar Ólafsson skoraði fyrra mark Íslands og Edmunds Induss jafnaði metin þegar aðeins hálf mínúta var eftir af venjulegum leiktíma, svo grípa varð til framlengingar.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því tók við vítakeppni. Edmunds og Sölvi Atlason skoruðu þar fyrir Ísland en Arnar Hjaltested, sem er aðeins 16 ára gamall, varði tvö víti og þar með var sigur Íslands í höfn.

Næsti leikur íslenska liðsins verður við Suður-Afríku á morgun. Lokaleikurinn verður gegn liði Ísraels á laugardaginn. Ísland er með 7 stig, Mexíkó 6, Búlgaría og Ísreal 4, Taívan 3 og Suður-Afríka 0. Leikur Taívan og Búlgaríu stendur nú yfir en að honum loknum eru tvær umferðir eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert