Ætlum okkur enn að ná í verðlaun

Dennis Hedström, markvörður Íslands.
Dennis Hedström, markvörður Íslands. mbl.is/Ómar

„Þetta eru mikil vonbrigði en við mætum einbeittir til leiks gegn Áströlum,“ sagði Dennis Hedström, markvörður íslenska landsliðsins í íshokkí, eftir 4:2-tapið gegn Spáni í gærkvöld í A-riðli 2. deildar HM sem fram fer í Skautahöllinni í Laugardal.

Þetta var annað tap Íslands eftir að liðið vann Belgíu í fyrsta leik á mánudag. Í kvöld mætir liðið Ástralíu kl. 20 og lokaleikurinn er gegn Rúmeníu.

Spánverjar komust í 2:0 snemma í öðrum leikhluta en Dennis var mjög ósáttur við annað markið og taldi leikmann spænska liðsins hafa staðið innan markteigs og truflað sig í skotinu, sem þýddi að markið hefði ekki átt að standa.

„Ég var á maganum og fannst ég vera truflaður. Ég gat ekki greint stöðuna þar sem ég var að fylgjast með pökknum en mér fannst leikmaðurinn standa við löppina mína og þetta var allt frekar furðulegt. Þetta var jafn leikur og það munar um svona en ég þarf að sjá þetta atvik aftur. Auðvitað er erfitt fyrir dómarann að greina þetta líka,“ sagði Dennis. Hann greip frábærlega inn í þegar leikmaður spænska liðsins slapp aleinn gegn honum og gat aukið muninn í 3:0.

„Það er auðvitað erfitt að lenda 2:0 undir. Markvarslan þegar þeirra maður slapp einn í gegn var ákveðinn vendipunktur fyrir okkur og við skoruðum gott mark, en þeir eru góðir í að verjast. Við áttum fjölda skota en þeim tókst að verjast því, en þetta var bara spurning um nokkra sentímetra. Þeir vörðust skotunum eins og brjálæðingar,“ sagði Dennis, sem er lítið að velta því fyrir sér hvort leikurinn í kvöld sé ekki hreinn fallslagur. Ísland er með 3 stig en Ástralía neðst í riðlinum með 2 stig:

„Ég hef ekki skoðað stöðuna og velti henni ekki fyrir mér heldur hugsa bara um næsta leik. En ég veit að ef við vinnum leikina tvo sem við eigum eftir fáum við verðlaun og það ætlum við að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert