Ísland burstaði Ástralíu 6:1

Úr leiknum í Laugardalnum í kvöld.
Úr leiknum í Laugardalnum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Ísland og Ástralía áttust við í afar mikilvægum leik í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal klukkan 20:00. Ísland vann stórsigur 6:1 og tryggði þar með sæti sitt í riðlinum að ári en Ástralir falla niður í B-riðil 2. deildar. 

Lið Íslands: Denn­is Hed­ström, Snorri Sig­ur­bergs­son - 1. lína: Birk­ir Árna­son, Ingþór Árna­son, Pét­ur Maack, Arnþór Bjarnason, Björn Ró­bert Sig­urðar­son 2. lína: Orri Blön­dal, Andri Mikaelsson, Stein­dór Inga­son, Jón­as Breki Magnús­son, Jó­hann Már Leifs­son 3. lína: Andri Már Helga­son, Ingvar Þór Jóns­son fyr­irliði, Robin Hed­ström, Emil Al­engård, Jón B. Gísla­son. 4. lína: Ingólf­ur Elías­son, Björn Már Jak­obs­son, Úlfar Jón Andrés­son, Egill Þormóðsson, Brynjar Bergmann. (línurnar miðaðar við leikskýrslu) 

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

60. mín: Leiknum er lokið. Ísland vann stórsigur 6:1. Orri Blöndal var valinn maður leiksins hjá Íslandi. 

54. mín: Mark! Staðan er 6:1 fyrir Ísland. Íslendingar ætla að klára þennan leik með stæl. Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson lagði upp mark fyrir Íþróttamann dagsins í Morgunblaðinu í morgun, Emil Alengård, sem snéri sér og afgreiddi pökkinn laglega í netið. Ástralirnir ráða ekkert við Emil sem á sinn besta leik í mótinu til þessa. 

51. mín: Mark! Staðan er 5:1 fyrir Ísland. Nú eru stigin þrjú í höfn enda hafa Ástralir ekki sett íslenska liðið undir neina pressu í síðasta leikhlutanum. Robin Hedström gaf fyrir markið og Ingþór Árnason skoraði af stuttu færi. Ég gæti trúað því að um sé að ræða hans fyrsta mark fyrir A-landsliðið. 

48. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Pirringurinn hjá Áströlunum er augljós. Þeir eru nú að snapa sér slagsmál úti um allan ís. Skiljanlegt að þeir séu pirraðir. Lið Ástralíu var í 1. deild fyrir aðeins þremur árum en virðist nú á leiðinni niður í B-riðil 2. deild. 

43. mín: Síðasti leikhlutinn er hafinn. Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Stigin þrjú sem í boði eru duga til að tryggja Íslandi áframhaldandi veru í efri hluta 2. deildar. 

40. min: Öðrum leikhluta er lokið. Ísland með þriggja marka forskot. Hlutirnir geta verið fljótir að gerast í íshokkí, bæðir góðir og slæmir, og sigurinn er því ekki í höfn. En staðan er vænleg og íslenska liðið er að spila vel. Emil er mjög hættulegur og ógnandi. 

38. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Röng skipting hjá íslenska liðinu, voru sex á ísnum og verða manni færri næstu 2 mínúturnar. Þetta er ódýrt. 

35. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Jóhann Leifsson fékk dauðafæri til að skora fimmta mark Íslands en ástralski markvörðurinn sá við honum. 

31. mín. Mark! Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Björn Róbert Sigurðarson komst í skyndisókn, fíflaði einn varnarmann og markmanninn í leiðinni áður en hann skoraði. Annað mark hans í mótinu. Afskaplega sætt þar sem Pétur var út af í 2 mínútur og Íslendingar skoruðu því manni færri. 

30. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Ísland nær aftur tveggja marka forskoti. Íslendingar fengu hættulega skyndisókn þar sem markvörður Ástrala varði mjög vel frá Emil. Jón B. Gíslason kom kom pökknum í framhaldinu á Robin Hedström sem keyrði upp að markinu hægra megin og tróð pökknum á nærstöngina úr mjög þröngu færi. Skil ekki hvernig hann fór að þessu en um fyrsta mark Robins í mótinu er að ræða. Þar er á ferðinni leikmaður sem skorað hefur þrennu oftar en einu sinni fyrir Ísland í þessum gæðaflokki en hefur ekki haft markheppnina með sér til þessa í fyrstu þremur leikjunum. 

29. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Glórulaus mistök urðu til þess að einn Ástralinn slapp aleinn á móti Dennis þegar við vorum manni fleiri. Dennis bjargaði málunum og varði. 

25. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Hiti að færast í menn enda mikið í húfi og liðin hafa bæði spilað fast. Hvergi er gefið eftir nú lenti mönnum saman á ísnum. Ég sá ekki hjá hverjum átökin byrjuðu en úr varð að Steindór og einn Ástralinn tókust hressilega á en dómararnir stöðvuðu það fljótlega. Báðir eru sendir út af en auk þess einn Ástrali sem braut af sér og kom látunum af stað. Íslendingar eru því manni fleiri og þurfa að nýta sér það. 

22. mín: Annar leikhluti er hafinn. Íslendingar þurfa að fylgja eftir fínum fyrsta leikhluta. 

Ísland þarf á góðum leik að halda hjá Emil Alengård …
Ísland þarf á góðum leik að halda hjá Emil Alengård í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

20. mín: Fyrsta leikhluta er lokið. Ísland er yfir 2:1. Allt annað að sjá til íslenska liðsins í dag heldur en í gær. Þá var doði yfir mönnum og kannski voru þeir ennþá slegnir eftir grátlegt tap gegn Serbíu. Nú eru íslensku landsliðsmennirnir einbeittir og baráttuglaðir eða eins og þeir eiga að sér að vera. 

18. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ástralir minnka muninn. Fengu skyndisókn og nýttu hana til hins ítrasta. Íslendingar hafa nokkrum sinnum fengið á sig mark seint í leikhluta í mótinu og það er pirrandi. 

16. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Markaskorarinn mikli Egill Þormóðsson skoraði úr góðu færi sem kom eftir frábæran undirbúning Jónasar Breka Magnússonar sem böðlaðist í gegnum miðja vörn Ástrala. Gafst ekki upp og úr varð mark. Nú er ég farinn að kannast við okkar menn. 

7. mín: Mark! Staðan er 1:0. Ástralir misstu mann út af í 2 mínútur. Jón Benedikt Gíslason kom pökknum á Íþróttamann dagsins í Morgunblaðinu í morgun, Emil Alengård, sem komst nærri marki Ástrala vinstra megin og skoraði með skoti í fjærhornið. Góð byrjun og nú þarf að láta kné fylgja kviði. 

3. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn. Pétur fékk strax brottvísun en Íslendingar stóðu það af sér. 

0. mín: Brynjar Bergmann ætlar að reyna að taka slaginn í kvöld. Hann spilaði fyrsta leikinn og meiddist á öxl. Mun hann vera með annars stigs rof á vöðva við viðbeinið. Hann er í það minnsta á skýrslu en var það ekki í síðustu tveimur leikjum. 

0. mín: Bæði lið þurfa á sigri að halda til þess að halda sér uppi í A-riðlinum. Tap í kvöld þýðir að öllum líkindum fall niður í B-riðil 2. deildar að ári. Vinni Ísland í venjulegum leiktíma er Ástralía fallið. Vinni Ástralía þyrfti Ísland að bjarga sér með sigri á Rúmeníu, sterkasta liðinu, í lokaumferðinni.

0. mín: Belgía vann Serbíu í dag 3:2 og Belgar eru þá með 6 stig en Serbar með 4 stig, Íslendingar 3 og Ástralir 2 stig. Rúmenar sem hafa unnið alla fjóra leiki sína burstuðu Spánverja 7:1 en Spánn er með 6 stig. 

0. mín: Ísland hefur unnið einn leik í riðlinum, gegn Belgíu, og tapað tveimur, gegn Serbíu og Spáni. Ástralía byrjaði illa og tapaði stórt fyrir Spáni og Rúmeníu en vann Serbíu í þriðja leiknum. Ísland á Rúmeníu, sterkasta liðið í riðlinum, í síðasta leik á sunnudagskvöldið en þá á Ástralía lið Belgíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert