Vonbrigði hjá Gerplu

Gerpla varð ekki Íslandsmeistari tíunda árið í röð
Gerpla varð ekki Íslandsmeistari tíunda árið í röð mbl.is/Kristinn

Gerplustúlkur voru að vonum niðurlútar eftir að hafa þurft að sjá á eftir Íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikum í hendur Stjörnustúlkna. „Við stefndum auðvitað á fyrsta sætið, gerðum okkar besta og það skilaði þessu,“ sagði Ingunn Jónasdóttir Hlíðberg úr Gerplu í samtali við blaðamann mbl í kvöld.

„Þær eru með mjög gott lið en við erum mjög gott lið líka. Þetta snerist bara um dagsformið.“ Ingunn sagði að vissulega hefði Gerpla getað gert eitthvað betur. „Við vorum með hnökra hér og þar.“

„Þetta er auðvitað spark í rassinn að gera betur,“ sagði Ingunn aðspurð hvort þessi úrslit gætu virkað sem hvatning fyrir næsta vetur. 

Blaðamaður opinberaði fávisku sína í lokin og spyr hvort þær séu ekkert smeykar þegar þær taka öll þessi rosalegu stökk? „Það er ekki það sem við hugsum um, alls ekki. Við hugsum bara um að lenda uppréttar og vonum það besta,“ sagði Ingunn og brosti að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert