Björn besti sóknarmaður mótsins

Björn Róbert Sigurðarson í leiknum gegn Belgíu.
Björn Róbert Sigurðarson í leiknum gegn Belgíu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Róbert Sigurðarson var rétt i þessu kosinn besti sóknarmaður A-riðils 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí sem lauk í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld. Fulltrúar allra þjóðanna og Alþjóða íshokkísambandsins sjá um að velja besta sóknarmanninn, besta varnarmanninn og besta markvörðinn. 

Er þetta mikill heiður fyrir Björn ekki síst með tilliti til þess að einstaklingsverðlaunin á HM falla gjarnan leikmönnum úr liðinu í efsta sæti í skaut. Auk þess er þetta ágæt auglýsing fyrir þennan unga leikmann því erlend félagslið fylgjast ágætlega með því hverjir eru heiðraðir í deildunum á HM. Björn gaf 5 stoðsendingar í leikjunum 5 og skoraði auk þess 2 mörk. 

Þegar Ísland hafnaði í 2. sæti í Serbíu í fyrra var Ingvar Þór Jónsson kosinn besti varnarmaðurinn. Hann og Björn eru einu Íslendingarnir sem hafa fengið slík verðlaun í 2. deild en íslensku landsliðsmennirnir hafa fengið slíkar viðurkenningar í 3. deild á árum áður og í yngri landsliðunum. 

Birkir Árnason fékk verðlaun sem besti leikmaður Íslands í mótinu af íslenska þjálfarateyminu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert