Rúmenía vann á gullmarki - Ísland í 5. sæti

Ísland hafnaði í 5. sæti í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal sem lauk í kvöld. Ísland fékk 7 stig í fimm leikjum eins og Serbía og Spánn en innbyrðisviðureignir senda Ísland niður í 5. sæti. Ísland tapaði í kvöld fyrir Rúmeníu 2:3 eftir framlengdan leik. 

Ísland vann Belgíu 3:0 og Ástralíu 6:1 en tapaði fyrir Serbíu 4:5 og fyrir Spáni 2:4. Rúmenía vann riðilinn með 14 stig og leikur aftur í 1. deild að ári en Ísland var eina liðið sem tók stig af Rúmeníu. Belgía varð í 2. sæti, stigi fyrir ofan liðin þrjú og Ástralía fellur niður í B-riðil 2. deildar með 2 stig. 

Markvörðurinn Snorri Sigurbergsson var valinn maður leiksins hjá Íslandi. Mörk Íslands skoruðu þeir Emil Alengård og Robin Hedström. 

Í riðlinum á næsta ári leika: Belgía, Serbía, Spánn, Ísland, Holland sem féll úr 1. deild og Kína sem kemst upp úr B-riðlinum. 

64. mín: Mark! Rúmenía skorar eftir þunga sókn og vinnur 3:2 á gullmarki. Ísland er eina liðið sem tók stig af Rúmeníu í mótinu. 

60. mín: Venjulegum leiktíma er lokið. Nú verður framlengt í 5 mínútur og gullmark ræður úrslitum. Framlengingin skiptir talsverðu máli fyrir Ísland sem er nú komið með 7 stig. Sigur í framlengingu eða vítakeppnip og þar með 8. stigið kæmi Íslandi í 2. sætið. Þá færi liðið upp fyrir Belgíu og Serbíu sem eru með 7 stig og upp fyrir Belgíu á innbyrðisviðureign sem einnig er með 8 stig. Vinni Rúmenía í framlengingu eða vítakeppni þá fær Ísland 5. sætið þar sem liðið tapaði fyrir Serbíu og Spáni sem eru einnig með 7 stig. Í framlengingu er fækkað um einn í hvoru liði til að auka möguleikana á því að mark sé skorað. 

56. mín: Mark! Staðan er 2:2. Andri Helgason kom pökknum á Emil Alengård sem reyndi að komast framhjá varnarmanni í gegnum miðjuna. Pökkurinn hrökk af þeim til vinstri og beint fyrir Robin Hedström sem hamraði hann glæsilega í hægra hornið. Frábært skot hjá Robin. 

50. mín: Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu. Ísland hefur tíu mínútur til þess að skora tvö mörk og næla sér í silfrið í keppninni.

44. mín: Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu. Annað stangarskot Íslands í leiknum. Emil skaut í stöngina innanverða og pökkurinn rúllaði þvert fyrir markið en vildi ekki inn fyrir línuna. Strax í kjölfarið fengu Rúmenar brottvísun. 

40. mín: Öðrum leikhluta er lokið. Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu fyrir síðasta leikhlutann. Leikurinn ber þessi merki að Rúmenar eru öruggir upp og íslenska liðið getur hvorki farið upp né fallið. Alla hvað það varðar að harkan er lítil en liðin hafa bara fengið sitt hvora brottvísunina. 

37. mín: Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu. Birkir fékk fyrstu brottvísun Íslands í leiknum. Íslendingar sluppu vel þegar Rúmenar virtust vera að skora þriðja markið en Ingvari tókst einhvern veginn að koma pökknum frá markinu á síðustu stundu. 

35. mín: Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu. Leikurinn hefur nú róast nokkuð. Það er svo sem ekki óeðlilegt þegar líður á annan leikhluta. 

30. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Rúmeníu. Rúmeninn Alexandru Munteanu keyrði upp að marki Íslands frá hægri og færið virtist þröngt en honum tókst að smella pökknum upp í þaknetið. Aftur komast Rúmenar yfir og nú er spurning hvort Íslendingar geti svarað fyrir sig á ný. 

24. mín: Mark! Staðan er 1:1. Það er ekkert annað. Ísland náði skyndisókn þar sem Robin Hedström komst í gott færi. Hann plataði rúmenska markvörðinn skemmtilega og þegar markvörðurinn var kominn úr jafnvægi renndi hann pökknum á Emil Alengård sem kom pökknum í opið markið. Fjórða mark Emils í mótinu. 

23. mín: Annar leikhluti er hafinn. Þau tíðindi voru að berast að Hollendingar falla niður úr B-riðlinum eftir tap gegn Eistlandi í lokaleiknum. Eistland var í riðli með Íslandi í fyrra. Holland hefur verið árum saman í 1. deild og lék á heimavelli í þetta skipti. 

20. mín: Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan er 1:0 fyrir Rúmeníu. Opinn og skemmtilegur leikur til þessa. Íslendingar hafa spilað ágætlega og margir óþreyttir leikmenn sem lítið hafa verið notaðir hafa fengið að spreyta sig. 

18. mín: Staðan er 1:0 fyrir Rúmeníu. Þessi leikur er galopinn. Íslendingar áttu hættulega sókn og í kjöfarið keyrðu Rúmenar fram og Snorri varði frá þeim í dauðafæri. Vel gert hjá Snorra. Í næstu sókn komst Pétur framhjá markverði Rúmena sem var í svokallaðri „skógarferð“. Pétur var með pökkinn fyrir aftan markið og gaf fyrir á Arnþór en Rúmeni komst á milli. 

13. mín: Staðan er 1:0 fyrir Rúmeníu. Þung sókn íslenska liðsins þar sem Íslendingar voru tvívegis aðgangsharðir upp við mark Rúmena en síðustu sendinguna vantaði til að búa til mark. 

10. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Rúmeníu. Hunor Csergo fékk nægan tíma til að athafna sig og skoraði af stuttu færi. Mér sýndist Ingólfur eiga möguleika á því að ná pökknum augnabliki áður en missti hann frá sér. 

8. mín: Staðan er 0:0. Íslenska liðið byrjar ágætlega á móti þessu sterkasta liði riðilsins. Snorri hefur einu sinni þurft að taka á því í markinu og varði vel frá Rúmena sem var í góðu færi. 

2. mín: Staðan er 0:0. Stangarskot. Jón Gísla fann Robin sem var óvaldaður og náði ágætu skoti en í samskeytin. Þarna sluppu Rúmenar vel. 

1. mín: Leikurinn er hafinn. Staðan er 0:0. Snorri byrjar í markinu í fyrsta skipti í mótinu. 

0. mín: Fyrr í dag unnu Serbar Spánverja 4:3 eftir framlengdan leik. Serbar fengu því tvö stig en Spánverjar eitt fyrir leikinn. Belgía vann Ástralíu í markaleik 10:4. Belgar bíða því eftir því að Rúmenar vinni Íslendinga en með því fá Belgar silfur. 

0. mín: Útlit er fyrir að Tim Brithén landsliðsþjálfari ætli að breyta línunum í kvöld og uppstilling íslenska liðsins gæti því orðið frábrugðin því sem verið hefur í mótinu. Nokkrir leikmenn hafa komið lítið við sögu og ættu að geta verið sprækir í þessum síðasta leik ef þeir fá tækifæri. Snorri Sigurbergsson gæti byrjað leikinn í markinu fyrir Ísland í fyrsta skipti en allt skýrist þetta betur á eftir. 

Lið Íslands: Snorri Sig­ur­bergs­son, Dennis Hedström - Birk­ir Árna­son, Ingþór Árna­son, Pét­ur Maack, Arnþór Bjarna­son, Björn Ró­bert Sig­urðar­son, Orri Blön­dal, Andri Mika­els­son, Stein­dór Inga­son, Jón­as Breki Magnús­son, Jó­hann Már Leifs­son, Andri Már Helga­son, Ingvar Þór Jóns­son fyr­irliði, Robin Hed­ström, Emil Al­engård, Jón B. Gísla­son, Ingólf­ur Elías­son, Björn Már Jak­obs­son, Úlfar Jón Andrés­son, Eg­ill Þormóðsson, Brynj­ar Berg­mann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert