Á leið í atvinnumennsku?

Björn Róbert Sigurðarson t.h. lék afar vel með íslenska landsliðinu …
Björn Róbert Sigurðarson t.h. lék afar vel með íslenska landsliðinu í 2. deildarkeppni heimsmeistaramótsins í íshokkí. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Róbert Sigurðarson var valinn besti sóknarmaðurinn í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí sem lauk í Skautahöllinni í Laugardal á sunnudagskvöldið. Frá því Ísland komst upp í 2. deild á HM árið 2007, sem fram fer árlega, þá hefur það einungis tvisvar gerst að íslenskir leikmenn hafi fengið einstaklingsverðlaun á mótunum.

Fyrir utan Björn þá er fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson sá eini sem fengið hefur slík verðlaun í 2. deild en hann var valinn besti varnarmaðurinn í Serbíu í fyrra. Á HM velja fulltrúar þjóðanna og alþjóða íshokkísambandsins, besta markvörð, besta varnarmann og besta sóknarmann. Oftar en ekki falla einstaklingsverðlaunin leikmönnum úr sigurliði riðilsins í skaut.

„Þetta er alveg frábært. Gríðarlegur heiður að fá þessi verðlaun. Við börðumst vel sem liðsheild en leiðinlegt að við skyldum ekki ná þeim árangri sem við ætluðum okkur. Það munaði pínulitlu enda munaði bara einu stigi að við fengjum silfur. Allir þessir leikir voru mjög jafnir og ég er strax farinn að horfa til næsta árs,“ sagði Björn þegar Morgunblaðið ræddi við hann að mótinu loknu þar sem Ísland hafnaði í 5. sæti með jafnmörg stig og liðin í 3. og 4. sæti.

Evrópa hentar betur

Spurður um næsta tímabil segist Björn mögulega vera á leiðinni til Evrópu. „Ég er með tilboð um að spila háskólahokkí í Bandaríkjunum en ég er meira að horfa til þess að koma mér til Evrópu í atvinnumennsku. Þá er maður nær heimahögunum en einnig tel ég að íshokkíið í Evrópu henti mér betur en í Bandaríkjunum. Ekkert er komið á hreint í þessum efnum en Svíþjóð hefur aðallega verið í spilunum en Noregur og Danmörk koma einnig til greina,“ sagði Björn sem lék með unglingaliði Malmö á sínum tíma og þekkir því til í Svíþjóð.

Ýtarlegt viðtal er við Björn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert