Ísland í öðru sæti

Íslensku keppendurnir á Smáþjóðaleikunum.
Íslensku keppendurnir á Smáþjóðaleikunum. Ljósmynd/lyftingasamband Íslands

Smáþjóðleikarnir í ólympískum lyftingum fóru fram í Mónakó í gær en mótið er árlegt mót á milli smáþjóðanna þar sem árangur þriggja bestu lyftingamanna er talinn saman til að finna sigurvegara.

Sex þjóðir sendu lið til keppni þetta árið en það voru ásamt mótshöldurum í Mónakó; Ísland, Kýpur, Malta, Lúxemborg og San Marínó. Lið Íslands og Kýpur háðu harða keppni um stigabikar mótsins og fór það svo að Kýpur sigraði með 15 Sinclair stigum eða samtals 997,57 stigum á móti 985,13 stigum Íslands. 

Stigahæstur íslendinganna var hinn 18 ára gamli Guðmundur Högni Hilmarsson sem snaraði 125 kg og jafnhenti 158 kg sem er nýtt Íslandsmet í -94kg flokki karla en Guðmundur vigtaðist inn 86,71 kg. Hann var jafnframt þriðji stigahæsti maður mótsins með 334,9 Sinclair stig 

Björgvin Karl Guðmundsson snaraði 122 kg og jafnhenti 150 kg, Sigurður Bjarki Einarsson snaraði 127 kg (sem er nýtt Íslandsmet í -94 kg flokki karla) og jafnhenti 156 kg og að lokum snaraði Andri Gunnarsson 140 kg og jafnhenti 170 kg en hann reyndi við 183 kg í jafnhendingu sem hafði tryggt Íslandi sigur en missti lyftuna í efstu stöðu.

Þeir verða allir í eldlínunni ásamt besta lyftingafólki landsins næstu helgi (2.maí) þegar Íslandsmótið fer fram í Kaplakrika milli 10-18 og er aðgangur ókeypis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert