Fjöldi meta á Íslandsmótinu

Íslandsmeistaramótið í ólympískum lyftingum fór fram laugardaginn 2.maí í Kaplakrika. 15 konur og 17 karlar hófu keppni og voru fjölmörg Íslandsmet í fullorðins og unglingaflokkum sett.

Í kvennaflokki bar hæst árangur Þuríðar Erlu Helgadóttur úr Ármanni. Hún snaraði 80 kg og jafnhenti 103 kg sem bæði voru íslandsmet. Með þeim árangri fór hún yfir 250 Sinclair stigamúrinn, fyrst íslenskra kvenna.

Hjördís Ósk Óskarsdóttir úr FH kom í humátt þar á eftir en hún bætti met Þuríðar í jafnhendingunni upp í 105 kg í -63 kg flokki kvenna. Katrín Tanja Davíðsdóttir Lyftingafélagi Reykjavíkur bætti nýlega sett met Annie Mist Þórisdóttur í snörun um 2 kíló þegar hún snaraði 85 kg í -69 kg flokki kvenna.

Í karlaflokki náði Andri Gunnarsson úr Lyftingafélagi Garðabæjar bestum árangri þegar hann snaraði 150 kg og jafnhenti 180 kg í +105 kg flokki karla. Í -69 kg. flokki karla snaraði hinn 18 ára gamli Einar Ingi Jónsson úr Lyftingafélagi Reykjavíkur 100 kg sem er nýtt met.

Í -94 kg flokki karla var mikil barátta um gullverðlaunin og fór það svo að Bjarmi Hreinsson úr Lyftingafélagi Reykjavíkur sigraði þegar hann snaraði nýju íslandsmeti, 132 kg, en áður hafði bronsverðlaunahafinn Jakob Daníel Magnússon úr Lyftingafélagi Hafnarfjarðar bætt metið með 130 kg. Bjarmi bætti síðan metið í samanlögðum árangri með því að jafnhenda 152 kg. Sigurður Bjarki Einarsson úr FH varð annar í flokknum en hann snaraði 125 kg og jafnhenti 155 kg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert