Elsti heimsmeistari í 37 ár

Stuart Bingham með bikarinn eftir sigurinn í úrslitaleiknum í gærkvöld.
Stuart Bingham með bikarinn eftir sigurinn í úrslitaleiknum í gærkvöld. AFP

Englendingurinn Stuart Bingham varð í gærkvöld elsti heimsmeistarinn í snóker í 37 ár þegar hann sigraði landa sinn Shaun Murphy í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Crucible-leikhúsinu í Sheffield á Englandi.

Bingham, sem verður 39 ára gamall í þessum mánuði, vann leikinn 18:15 og þakkaði keppinauti sínum, Mark Allen frá Norður-Írlandi, góðan árangur sinn síðustu árin. Allen sagði við Bingham fyrr leik þeirra í Ástralíu fyrir fjórum árum að hann hefði ekki dug til að ná lengra. „Þetta hefur hvatt mig áfram. Ég vann mótið, varð að venjast því að spila sem meistari, og það hefur gengið vel," sagði Bingham eftir sigurinn.

Ray Reardon var 46 ára þegar hann hampaði heimsmeistaratitlinum árið 1978.

Englendingar hafa nú átt heimsmeistara í íþróttinni fjögur ár í röð en Mark Selby vann í fyrra og Ronnie O'Sullivan næstu tvö ár þar á undan. Shaun Murphy á einn sigur að baki en hann varð meistari árið 2005. Bingham hefur hinsvegar aldrei áður komist í úrslitaleik mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert