Sverre meiddist á hné

Varnarjaxlinn Sverre Jakobsson varð fyrir meiðslum í landsleik Serbíu og Íslands í undankeppni EM í handknattleik í Nís í Serbíu á sunnudagskvöldið. Sverre meiddist á hné á þýðingarmiklu augnabliki á lokamínútu leiksins.

Leikmaður Serba, Dalibor Cutura, sótti þá að íslensku vörninni en snéri sig á ökkla og datt um leið og hann gaf sendingu til hliðar. Sverre komst inn í sendinguna og vann boltann. Úr varð hraðaupphlaup sem Guðmundur Árni Ólafsson skoraði jöfnunarmark Íslands úr en úrslit leiksins urðu 25:25.

Cutura féll ofan á hægri fót Sverre og fyrir vikið fékk Sverre hnykk á hnéð. Var Sverre nokkuð kvalinn að leiknum loknum og fann til í hnénu innanverðu. Til stóð að Sverre færi í myndatöku ef færi gæfist við heimkomuna frá Serbíu og í framhaldinu skýrist hvort meiðslin eru alvarleg eða ekki. Sverre sagði við Morgunblaðið á dögunum að hann gerði ráð fyrir því að leikirnir gegn Serbíu yrðu hans síðustu fyrir landsliðið en vildi þó ekki lýsa neinu yfir.

Ekki er útilokað að Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari vilji leita til Sverre þegar Ísland leikur síðustu tvo leikina í undankeppninni í júní. Fari svo að eitthvað hafi gefið sig í hnénu þá er sá möguleiki væntanlega úr sögunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert