Íslensk ungmenni hlaðin verðlaunum frá Danmörku - myndasyrpa

Nú um helgina héldu sjö íslensk ungmenni ásamt fararstjórum til Danmerkur til að taka þátt í Danish Junior Open, alþjóðlegu unglingamóti í badminton. Var þetta í fyrsta sinn sem hópurinn heldur á erlenda keppni en hópurinn er afar keppnisvanur hérlendis. Ungmennin snúa heim með tvö gull, tvö silfur og tvö brons.

Krakkarnir fóru allir á sínum eigin vegum og kepptu því ekki í nafni félags síns, en þau æfa öll í U15 flokki TBR. Hópinn skipuðu, Andrea Nilsdóttir, Bjarni Þór Sverrisson, Einar Sverrisson, Daníel Ísak Steinarsson, Erna Katrín Pétursdóttir Eysteinn Högnason og Þórunn Eylands. Árangur íslenska liðsins var langt fram úr öllum vonum en þau komust í verðlaunasæti í öllum kepptum greinum.

Í einliðaleik karla komst Daníel Ísak Steinarsson í undanúrslit og fékk bronsverðlaun. Í einliðaleik kvenna vann Andrea Nilsdóttir öruggan sigur eftir flottan leik á móti Friederike Börensen frá Þýskalandi. 

Í tvíliðaleik karla spiluðu Daníel Ísak Steinarsson og Einar Sverrisson úrslitaleik gegn dönsku pari sem hafðu betur og fengu því Daníel og Einar silfurverðlaun.

Í undanúrslitum í tvenndarleik léku svo íslensk lið á móti hvort öðru, Einar Sverrisson og Þórunn Eylands á móti Daníel Ísak Steinarssyni og Andrea Nilsdóttur. Einar og Þórunn báru sigur úr býtum eftir afar jafnan og æsispennandi leik, en Daníel og Andrea fengu bronsverðlaun. Einar og Þórunn spiluðu í úrslitum á móti Amalie Baden og Mikkel Pedersen frá Værløse og fóru með öruggan sigur af hólmi í tveimur lotum.

Fararstjórarnir voru á einu máli að hópurinn hefði sótt sér gríðarlega reynslu á þessu fyrsta erlenda móti sínu og stóðu þau sig öll með prýði. Það er því alveg ljóst að hér eru á ferðinni framtíðar afreksfólk Íslands í greininni, en myndasyrpa Ingibjargar Hilmarsdóttur frá mótinu er meðfylgjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert