Geymir tárin fyrir lágmarkið til Ríó

Hafdís Sigurðardóttir.
Hafdís Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert

„Ég er bara leyfa mér að slaka á núna,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir þegar mbl.is sló á þráðinn til hennar norður í land í kvöld, skömmu eftir að hún bætti eigið Íslandsmet í langstökki. Hún stökk þá 6,45 metra á Vormóti UFA og bætti eigið með um 4 sentimetra.

„Jú, ætli það ekki,“ sagði Hafdís og hló þegar blaðamaður hafði á orði að hún ætti slökunina nú alveg skilið, en metið kom henni í sjálfu sér nokkuð á óvart.

„Það er ótrúlega ljúft. Ég vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast þegar ég hélt af stað út áðan, en þetta kom mér skemmtilega á óvart. Það var aðeins meðvindur en ég náði að hitta á það á milli svo hann skemmdi ekki alveg allt fyrir mér,“ sagði Hafdís, en hún stökk einnig yfir 6,50 metra sem fæst ekki skráð vegna meðvinds.

„Veðurspáin rættist ekki en það fór að rigna í restina. Það var pínu kalt, en maður reyndi að bíta á jaxlinn.“ – „Eins og norðlendingum sæmir,“ bætti blaðamaður við og tók Hafdís heilshugar undir það áður en hláturinn tók við.

Hafdís eftir Íslandsmet sitt í kvöld.
Hafdís eftir Íslandsmet sitt í kvöld. Ljósmynd/Hafdís Sigurðardóttir

Eyðir ekki tárunum strax

Hafdís segir það sérstaklega ánægjulegt að bæta met sitt svo snemma á tímabilinu.

„Það er fargi af mér létt núna, að komast í gegnum fyrsta mótið og sjá tölurnar. Ég hef verið stressuð yfir þessu, hvernig ég kem undan æfingaálaginu,“ sagði Hafdís sem er þó ekki óvön því að bæta met svona snemma tímabils.

„Ég gerði þetta fyrir tveimur árum líka, þá bætti ég metið rétt eftir 20. maí. Þá féllu nokkur tár en ég brosti bara núna. Það var fyrsta Íslandsmetið, þá grét ég bara úr gleði en hef gert þetta nokkrum sinnum síðar. Þetta er engu að síður alltaf jafn góð tilfinning, en ég var ekkert að eyða tárunum núna,“ sagði Hafdís.

„Þegar lágmarkið kemur til Ríó, þá skal ég fara að grenja.“

Talandi um Ríó, þá stefnir Hafdís að sjálfsögðu á Ólympíuleikana sem þar verða haldnir á næsta ári. Lágmarkið í langstökki inn á leikana eru 6,70 metrar. „Mér finnst það ansi langt sko,“ sagði Hafdís og hló við, en segir það vitanlega vera inni í myndinni.

„Ég fór tvisvar yfir 6,50 áðan með smá meðvindi, svo það er allt hægt. Þetta er ekkert langt upp í 6,70 en að sjálfsögðu þarf að hafa mikið fyrir því að ná því. Það er ekkert grín að ná þessu, hver sentimetri er alveg helvíti,“ sagði Hafdís.

Hafdís Sigurðardóttir.
Hafdís Sigurðardóttir. mbl.is/Eva Björk

Verðlaunar sig með Brynjuís

Þegar blaðamaður talaði við Hafdísi átti hún enn eftir að fara í lyfjapróf eftir keppni kvöldsins. „Það fylgir þessu,“ sagði Hafdís, sem ætlaði annars að njóta kvöldsins.

„Annars ætla ég bara að hafa það kósí, kannski ég verðlauni mig eitthvað,“ sagði Hafdís og minntist blaðamaður þá á Brynjuísinn fræga. „Það gæti gerst,“ sagði Hafdís sposk, og sagði hann oft fylgja því að fagna góðum árangri.

„Maður á að njóta stundarinnar, það er svo skemmtilegt þegar svona gengur,“ sagði Íslandsmethafinn Hafdís Sigurðardóttir í samtali við mbl.is nú í kvöld. 

Næst á dagskrá hjá henni eru Smáþjóðaleikarnir sem hefjast í næstu viku.

Sjá: Hafdís bætti Íslandsmet sitt í langstökki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert