Ráku forsetann úr embætti

Jeffrey Webb.
Jeffrey Webb. AFP

Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku, CONCACAF, tilkynnti nú síðdegis að forseta þess, Jeffrey Webb frá Caymen-eyjum, hafi verið vikið frá störfum, í kjölfarið á handtöku hans í Zürich í Sviss í gær.

Webb, sem jafnframt er einn af varaforsetum FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, er einn sjömenninganna sem handteknir voru vegna meintrar spillingar. Hann hefur verið náinn samstarfsmaður Sepps Blatters, forseta FIFA, sem ekki alls fyrir löngu nefndi Webb sem álitlegan eftirmann sinn í embætti.

Varaforsetinn, Alfredo Hawit frá Hondúras, tekur við embættinu af Webb. CONCACAF hefur aðsetur í Miami á Flórída og er því undir bandarískri lögsögu, en það var bandaríska alríkislögreglan sem stóð fyrir handtökunum í Zürich, í samvinnu við svissnesk yfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert