Framtíð Blatters ræðst í dag

Forseti FIFA Sepp Blatter
Forseti FIFA Sepp Blatter AFP

Framtíð Sepps Blatters, forseta FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, ræðst í dag er forsetakjör sambandsins fer fram í Zürich í Sviss. Talið er nánast öruggt að hann verði endurkjörinn þrátt fyrir að hneykslismál skeki  sambandið.

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, forseti Frakklands, François Hollande og utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, hafa allir sagt að hreinsa verðir til innan FIFA og hefur Cameron jafnvel gengið svo langt að segja að Blatter eigi að segja af sér. En ekkert bendir til þess að Blatter fái rauða spjaldið nú eftir að hafa setið á forsetastóli í sautján ár.

Steinmeier gengur svo langt að segja að ef knattspyrnusambandið geti ekki sjálft hreinsað upp þá spillingu sem eigi sér stað þá neyðist ríkisstjórnir aðildarríkjanna til þess að grípa til aðgerða.

Einn helsti styrktaraðili FIFA, Hyundai bílaframleiðandinn í Suður-Kóreu, hefur lýst því yfir að fyrirtækið hafi miklar áhyggjur af stöðu mála hjá FIFA og hvaða áhrif saksókn á hendur einstaklingum hjá sambandinu hafi á knattspyrnuna.

Kreditkortafyrirtækið Visa hefur hótað því að endurskoða styrktarsamning við FIFA ef ekki verði hreinsað til og eins hafa fyrirtæki eins og Coca-Cola, Adidas, McDonald's og  Budweiser hvatt til aðgerða innan FIFA. Jafnframt eru Sameinuðu þjóðirnar að endurskoða samstarf sitt við FIFA.

En það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem Blatter stendur frammi fyrir ólgusjó og þykir ljóst að bæði Afríka og Asía standa á bak við hann þrátt fyrir sakamálarannsókn í Bandaríkjunum og Sviss.

Blatter flutti opnunarávarp ársfundar FIFA í Sviss í gær með þeim orðum að hann gæti ekki fylgst með öllum - alltaf. Næstu mánuðir verði erfiðir fyrir FIFA og hann segist sannfærður um að fleiri slæmar fréttir eigi eftir að berast. Hann telji nauðsynlegt að hefja uppbyggingu trausts á sambandinu á nýjan leik, sagði Blatter sem er 79 ára gamall. Það verði í hans höndum að bera ábyrgðina á orðspori sambandsins og það muni takast að lokum að laga þá hluti sem þarf að bæta.

Eins og ítrekað hefur komið fram þá hefur Michael Platini, forseti Evrópska knattspyrnusambandsins UEFA, litla trú á Blatter og hefur hvatt Blatter til þess að segja af sér. Í einkasamtali milli þeirra tveggja hafi Blatter tjáð honum að það væri orðið of seint. 

UEFA hvetur allar þjóðir til að kjósa ekki Blatter í forsetakosningunum en hann hefur verið forseti síðustu 17 ár. Platini fullyrti að meirihluti Evrópuþjóða myndi styðja mótframbjóðanda Blatters, prinsinn Al bin al Hussein. Prinsinn er 39 ára gamall Jórdani og sonur Husseins Jórdaníukonungs. Sá hefur lýst því yfir að hann hyggist beita sér fyrir hreinsunum og endurskipulagningu innan FIFA.

Til að sigra í fyrstu umferð í kosningunum þarf tvo þriðju atkvæða fulltrúa FIFA en þeir eru 209 talsins. Ef til annarrar umferðar kemur þá dugar meirihluti atkvæða til að ná forsetakjöri. Í morgun tilkynntu Nýsjálendingar að þeir myndu ekki styðja Blatter líkt og þeir hafi alltaf gert.

Evrópuþjóðirnar í UEFA munu hittast 6. júní og fara yfir stöðuna ef Blatter sigrar. „Við munum skoða alla möguleika,“ sagði Platini. Hann vildi þó ekki tjá sig um hvort þjóðir innan UEFA myndu mögulega sniðganga næsta heimsmeistaramót og draga sig út úr FIFA.

Englendingurinn David Gill, stjórnarmaður í UEFA og fulltrúi sambandsins í framkvæmdastjórn FIFA, tilkynnti að hann myndi ekki sitja áfram í framkvæmdastjórninni ef Blatter yrði endurkjörinn. Platini vonar innilega að til þess komi ekki.

Sjö háttsettir einstaklingar hjá knattspyrnusambandinu voru handteknir af svissnesku lögreglunni á miðvikudag en um er að ræða rannsókn á staðarvali HM í knattspyrnu í Rússlandi 2018 og Katar 2022.

Þeir sem voru handteknir eru meðal þeirra 14 sem bandaríska alríkislögreglan sakar um að hafa þegið yfir 150 milljónir Bandaríkjadala í mútur í máli sem er til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum.

Brasilísk yfirvöld hafa tilkynnt um að mikill kraftur verði settur í rannsókn á þeim ásökunum sem komið hafa fram á hendur varaforseta brasilíska knattspyrnusambandsins, Jose Maria Marin, en hann var handtekinn í Sviss á miðvikudag. Hann verður framseldur til Bandaríkjanna ásamt hinum sex sem voru handteknir í Sviss. Nafn Marins er nú ekki lengur að finna í höfuðstöðvum knattspyrnusambands Brasilíu.

AFP
AFP
AFP
Ali bin al-Hussein og Sepp Blatter
Ali bin al-Hussein og Sepp Blatter AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert