Tíðindi ef Blatter verður enn eftir tvö ár

Sepp Blatter fagnar sigri í dag.
Sepp Blatter fagnar sigri í dag. AFP

Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, lýsti yfir óánægju sinni með endurkjör Sepp Blatters sem forseta Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á ársþingi þess í Zürich í dag.

Enska sambandið ásamt því Evrópska höfðu gefið það út fyrir kosningarnar að ef Blatter yrði endurkjörinn kæmi það til greina að segja sig tímabundið úr FIFA, á meðan rannsókn fer fram á miklum spillingarmálum innan þess.

„Atburðir vikunnar voru svakalegir fyrir FIFA og ég get ekki séð að sambandið geti snúið til baka með Blatter við stjórn. Hann hefur haft sextán ár til breytinga en ekki gert það. England mun ekki draga sig til baka úr neinu án víðtæks stuðnings, enda væri það fáránlegt. En þetta er engu að síður upphafið, ekki endalokin, á þessum farsa í kringum FIFA,“ sagði Dyke og getur illa unað úrslitunum.

„Að halda að Blatter geti endurmótað FIFA er bull. Það kæmi mér á óvart ef hann er enn í starfi eftir tvö ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert