Helga og Viktor Íslandsmeistarar

Viktor Samúelsson, KFA, sigraði í opnum flokki karla.
Viktor Samúelsson, KFA, sigraði í opnum flokki karla. Ljósmynd/Anna Lilja Sigurðardóttir

Helga Guðmundsdóttir úr Breiðablik og Viktor Samúelsson úr KFA urðu Íslandsmeistarar kvenna og karla í opnum flokki í kraftlyftingum en Íslandsmeistaramótið fór fram í Njarðvík um síðustu helgi.

Helga náði 501,1 stig í opnum flokki kvenna, en það er í fyrsta sinn sem íslensk kona fer yfir 500 stig í samanlögðum árangri. Helga lyfti samtals 466 kg í -63 kg flokki sem er nýtt Íslandsmet.

Fast á hæla hennar komu þær Tinna Rut Traustadóttir og Arnhildur Anna Árnadóttir frá Gróttu og María Guðsteinsdóttir, Ármanni.  Stigahæsta liðið í kvennaflokki var Grótta. 

Viktor fékk 546,2 stig og 947 kg í -120 kg flokki karla. Viktor er ennþá í unglingaflokki og er þetta nýtt Íslandsmet unglinga, en hann setti líka Íslandsmet í opnum flokki í bekkpressu með 282 kg.

Júlían J. K. Jóhannsson, Ármanni, og Einar Örn Guðnason, Akranesi, komu næstir á eftir. Stigahæsta liðið í karlaflokki var Massi úr Njarðvík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert