Hulda bætti sig verulega

Hulda Þorsteinsdóttir svífur yfir rána.
Hulda Þorsteinsdóttir svífur yfir rána. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hulda Þorsteinsdóttir úr ÍR stökk í gærkvöld yfir 4,30 metra í stangarstökki á innanfélagsmóti ÍR-inga í Laugardalshöllinni og er þar með aðeins 20 sentimetrum frá því að ná lágmarkinu fyrir heimsmeistaramótið innanhúss sem fram fer í Kína síðar í sumar.

Hulda hefur hæst stökkið 4,10 metra utanhúss en hún fór yfir þá hæð í Kaplakrika fyrr í þessum mánuði, og skömmu áður fór hún yfir 4,01 metra innanhúss, sem var hennar besti árangur þar, þangað til í gærkvöld..

Hún er þriðji besti stangarstökkvari Íslands í kvennaflokki frá upphafi, bæði innanhúss og utanhúss. Aðeins Þórey Edda Elísdóttir, sem á Íslandsmetið, 4,60 metra, og Vala Flosadóttir, sem stökk 4,50 metra á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og fékk þar bronsverðlaunin, hafa gert betur utanhúss, og innahúss er Þórey með 4,51 metra og Vala 4,45 metra.

Með þessum árangri er Hulda í 44. sæti á Evrópulistanum innanhúss fyrir árið 2015 og í 73. sæti á heimslistanum.

Næsta verkefni Huldu er í Gautaborg á föstudagskvöldið kemur, og á sunnudaginn, þar sem hún keppir á VU Spelen og mætir bestu stangarstökkvurum Svíþjóðar, Noregs og Finnlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert