Nýr Usain Bolt?

Trayvon Bromell, til hægri.
Trayvon Bromell, til hægri. AFP

Verður Trayvon Bromell næsti Usain Bolt? Þessari spurningu velta menn nú upp eftir að bandaríski táningurinn náði tíunda besta tíma frá upphafi í 100 metra hlaupi á bandaríska meistaramótinu.

Bromell, sem er 19 ára, hljóp vegalendina á tímanum 9,84 sekúndum sem er töluvert betri tími en fótfráustu menn heims í dag náðu á hans aldri.

Sá eini sem hefur hlaupið 100 metrana undir 10 sekúndum fyrir tvítugt er Jamaíkumaðurinn Yoan Blake en heimsmethafinn, Usain Bolt, náði því ekki fyrr en hann var 21 árs.

Bromell hefur því alla burði til að skáka Bolt og verða fótfráasti maður heims en Bolt hefur átt frekar erfitt uppdráttar á hlaupabrautinni og best hlaupið 100 metrana á 10,12 sekúndum á þessu ári.

Hinn smávaxni Bromell hljóp á 9,84 sekúndum í undanrásunum á bandaríska meistaramótinu og í úrslitahlaupinu varð hann annar á eftir Justin Gatlin á tímanum 9,96 sekúndum eftir að hafa hlaupið á 9,76 sekúndum í undanúrslitunum.

Með árangri sínum á bandaríska meistaramótinu tryggði Bromell sér farseðilinn á heimsmeistaramótið sem haldið verður í Peking í ágúst og það verður fróðlegt að sjá bandaríska strákinn etja kappi við menn eins og Usain Bolt, Justin Gatlin, Asafa Powell og Yoan Blake.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert