Á hjólaskíðum á Flateyri

Þrátt fyrir að nú eigi að teljast hásumar er ekki seinna vænna fyrir vetraríþróttafólk að hefja æfingar fyrir næstu kuldatíð, en Skíðasamband Íslands stóð fyrir æfingabúðum fyrir unglinga og landsliðsmenn í skíðagöngu um síðustu helgi á Ísafirði og nágrenni.

Nýr landsliðsþjálfari, Norðmaðurinn Jostein Hestmann stjórnaði æfingunni en þjálfari Ísfirðinga Steven P. Gromatka var honum innan handar.

Mjög góð þátttaka var í búðunum en 16 manns tóku þátt, þar með taldir báðir A-landsliðsmenn SKÍ þeir Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson. Veður lék við hópinn þennan tíma sem nýtti sér það og fór á fjölbreyttar æfingar.

Meðal annars var gengið á hjólaskíðum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, hlaupið var með stafi upp Hrafnseyrarheiði og út Súgandafjörð ásamt hjólaskíðum á Flateyri og þrekþjálfun í fjörunni í Holti.  Þátttakendur voru allir sammála um að einkar vel hafi tekist til og þeir skemmt sér vel og æft mikið, en nokkrar myndir má sjá efst í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert