„Búinn að skilja hann eftir í Eindhoven“

Albert Guðmundsson með treyjuna ásamt Guðmundi Benediktssyni, föður sínum.
Albert Guðmundsson með treyjuna ásamt Guðmundi Benediktssyni, föður sínum. Mynd/Twitter.

„Ég er búinn að skilja hann eftir í Eindhoven,“ sagði Guðmundur Benediktsson faðir Alberts Guðmundssonar sem samdi í dag til þriggja ára við hollenska meistaraliðið PSV Eindhoven með möguleika á eins árs framlengingu.

Guðmundur var með syni sínum úti en er á heimleið enda er hann aðstoðarþjálfari KR sem mætir FH í Kaplakrika á morgun í stærsta leik tímabilsins til þessa í efstu deild karla í knattspyrnu.

„Ég er bara hálfnaður á leið minni“

Sjálfum líst Alberti vel á félagið en hann segist þó bara vera hálfnaður á sinni leið. 

„Þetta er flottur klúbbur sem ég hlakka mikið til að æfa og spila með. Það hefur alltaf verið markmið hjá mér að vera atvinnumaður í fótbolta og reyna að ná eins langt og hægt er. Þetta er það sem ég hef verið að vinna fyrir, auðvitað er ég stoltur af því að vera kominn hingað en ég er bara hálfnaður á leið minni,“ sagði Albert Guðmundsson við mbl.is í dag.

„Ég mun að öllum líkindum byrja með Jong PSV sem er varaliðið hjá PSV sem er í næstefstudeild. Síðan fæ ég mínútur í U19 Meistaradeildinni. Síðan þarf ég bara að vinna mig út frá því í aðalliðið,“ sagði Alfreð.

Albert hittir fyrir Hjört Hermannsson félaga sinn og ræddi vel við hann áður en hann tók ákvörðun.

„Við erum í miklu sambandi og höfum rætt þetta mikið. Ég hlakka bara til að geta „hangið“ með honum núna,“ sagði Albert hress en móðir Alberts mun einnig flytja erlendis með Alberti í þetta skiptið.

„Það er bara „back to hotel mamma,“ sagði Albert.

„Vonum að ég hafi bara tekið það á mig fyrir fjölskylduna“

„Þetta er gríðarlega spennandi og skemmtilegt skref fyrir hann að fara til meistaranna sjálfra. Ég held að þetta sé risatækifæri fyrir hann til þess að ná enn lengra í þessu. Miðað við hvernig búið er að leggja þetta upp þá líst mér mjög vel á þetta,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur var sjálfur á meðal efnilegri knattspyrnumönnum Íslands á árum áður en alvarleg hnémeiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum og ferilinn var aldrei eins og hann hefði getað orðið.

„Aðalmálið er að menn haldist heilir og hafi metnað í það að ná langt. Um það snýst þetta,“ sagði Guðmundur sem sleit krossband í hné samtals fimm sinnum en náði samt að spila 237 leiki í efstu deild hér á landi og skoraði í þeim 57 mörk.

„Við vonum að ég hafi bara tekið það á mig fyrir fjölskylduna og að það sé frá,“ sagði Guðmundur Benediktsson, léttur á því.

Albert við undirskriftina í dag.
Albert við undirskriftina í dag. Mynd/Heimasíða PSV.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert