Brithen til starfa hjá stóru félagi

Tim Brithén, landsliðsþjálfari karla í íshokkí.
Tim Brithén, landsliðsþjálfari karla í íshokkí. mbl.is/Styrmir Kári

Óvíst er hvort Svíinn Tim Brithen geti haldið áfram sem landsliðsþjálfari Íslands í íshokkí karla en hann hefur stjórnað liðinu í síðustu tveimur heimsmeistarakeppnum.

Brithen hefur ráðið sig til starfa hjá HV71 sem aðstoðarþjálfari en liðið leikur í efstu deild í Svíþjóð. Starfið er því mjög umfangsmikið en efsta deild í Svíþjóð er stór atvinnumannadeild en alls er íshokkí leikið í sjö deildum í Svíþjóð.

„Þetta er líklega stærsta starf sem ég hef fengið á þjálfaraferlinum hingað til. Ég er mjög ánægður því í þessu felst stórt tækifæri fyrir mig. Félagið er á meðal þeirra stærstu í Svíþjóð,“ sagði Brithen þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Brithen er fremur ungur að árum af þjálfara að vera og fær nú tækifæri til að starfa í hæsta gæðaflokki í íþróttinni. HV71 skipti nýlega um þjálfara og nýi aðalþjálfarinn hafði áður unnið með Brithen og fékk hann til Jönköping. Þess má geta að íslenska karlalandsliðið í handknattleik spilaði þrjá leiki á heimavelli HV71 í milliriðli á HM í Svíþjóð árið 2011. Svíinn er með samning við ÍHÍ um að stýra landsliðinu fram yfir 2. deild HM í apríl 2016.

„Við höfum ekki komist að niðurstöðu en erum að vinna í því. Ég get því ekkert sagt til um það á þessari stundu en auðvitað mun þetta nýja starf taka mikinn tíma. Ég þarf í samvinnu við ÍHÍ að finna lausn sem hentar öllum aðilum,“ sagði Brithen. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert