Koma heim hlaðin verðlaunum

Jóhann Fannar Kristjánsson.
Jóhann Fannar Kristjánsson.

Íslensku keppendurnir í áhaldafimleikum á Special Olympics, sem lauk í Los Angeles í dag, stóðu sig frábærlega. Samtals unnu þau fjögur gull, þrjú silfur og sex bronsverðlaun.

Jóhann Fannar Kristjánsson nældi í þrenn gullverðlaun og tvær bronsmedalíur. Birkir Eiðsson vann eitt gull og brons. Erla Björg Haraldsdóttir krækti í tvo silfurpeninga og eina bronsmedalíu og Eydís Ásgeirsdóttir vann eitt silfur og tvö brons.

Birkir Eiðsson.
Birkir Eiðsson.

Mbl.is ræddi við Evu Hrund Gunnarsdóttur, þjálfara krakkanna, en hún var vitanlega í skýjunum með þennan glæsilega árangur. „Þetta eru þrettán medalíur sem er frábært.“ Aðspurð hvort árangurinn hafi komið á óvart er Eva á báðum áttum. 

„Já og nei. Við vissum ekki alveg við hverju átti að búast. Árangurinn er frábær og það voru rosalega flottir krakkar að keppa. Ég get samt ekki sagt að þetta hafi komið á óvart því okkar krakkar eru svo flottir. Þetta var mjög skemmtilegt.“

Sigurlín Jóna þjálfari, Erla Björg Haraldsdóttir, Eydís Ásgeirsdóttir og Eva …
Sigurlín Jóna þjálfari, Erla Björg Haraldsdóttir, Eydís Ásgeirsdóttir og Eva Hrund.

Hún segir íslensku krakkana ganga um svæðið eins og rokkstjörnur. „Þau fara um svæðið með medalíurnar um hálsinn og það klingir í þeim.“ Eva hlær þegar blaðamaður spyr hvort þau þurfi ekki auka tösku undir alla verðlaunagripina. „Ætli þau taki þetta ekki í handfarangur.“

Eva segir krakkana fá hvíld í mánuð eftir ólympíuleikana. „Tveir verða eftir hérna úti og ætla að ferðast með fjölskyldum sínum. Þau upplifa örugglega eitthvert spennufall og það verður tilbreyting að fara í hversdagsleikann eftir að hafa verið hér í tvær vikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert