Biðla til Bandaríkjanna að sækja um

Framamenn í Ólympiuhreyfingunni vilja að Sumarólympíuleikarnir árið 2024 verði í …
Framamenn í Ólympiuhreyfingunni vilja að Sumarólympíuleikarnir árið 2024 verði í Bandaríkjunum. Ljósmynd / Reuters

Áhrifamenn innan Ólympíuhreyfingarinnar hafa farið þess á leit við ólympíunefndina í Bandaríkjunum að hafa hraðar hendur um að finna stað sem getur sótt um það að halda Sumarólympíuleikanna árið 2024 í stað Boston sem dró til baka umsókn sína um að halda leikana í síðastliðinni viku.

Bandaríkin hafa ekki haldið Ólympíuleika síðan Atlanta hélt Sumarólympíuleikana árið 1996. Ágreiningur um sjónvarpsrétt og styrktarsamninga hafa staðið því fyrir þrifum að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að halda Ólympíuleika. 

Bandaríska ólympíunefndin valdi Boston sem keppnisstað fyrir Sumarólympíuleikana árið 2024, en vegna skorts á stjórnmálalegum stuðningi þar í borg var hætt við að halda leikana þar.

Frestur til þess að skila inn umsóknum um að halda leikana rennur út í september og því er Alþjóða ólympíusambandið og bandaríska ólympíunefndin í kapphlaupi við tímann um að finna hentugan stað til þess að halda leikana. 

Forseti Alþjóða ólympíusambandsins, Thomas Bach og forseti samtaka ólympíunefnda, Sheikh Ahmad Al-Fahad Al-Sabah biðluðu til Bandaríkjamanna að finna borg sem tæki við kyndlinum af Boston í samtali við Reuters fréttastofuna.

„Ég held að allir innan Ólympíuhreyfingarinnar vilji sjá að Ólympíuleikarnir verði haldnir í Bandaríkjunum.“ sagði Sheikh Ahmad í samtali við Reuters eftir fund hjá samtökum ólympíunefnda í síðustu viku.

Washington, Los Angeles og San Francisco, lutu í lægra haldi fyrir Boston sem fulltrúi Bandaríkjanna í valinu um að halda Sumarólympíuleikana árið 2024, en þessar þrjár fyrrnefndu borgir koma nú aftur til greina sem keppnisstaður leikanna. 

Sú bandaríska borg sem ákveður að taka slaginn mun að öllum líkindum halda Sumarólympíuleikana árið 2024 í ljósi þess sem að framan greinir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert