Aníta rétt missti af undanúrslitunum

Aníta Hinriksdóttir hljóp sitt besta 800 metra hlaup á árinu þegar hún keppti í sjötta og síðasta riðli undanrása á HM í Peking í nótt.

Aníta hljóp vel, var nokkuð aftarlega í hópnum í sínum riðli allt þar til að um 250 metrar voru eftir en jók þá hraðann. Hún hélt ekki alveg út en kom í mark á 2:01,01 mínútum og varð fimmta í sínum riðli, rétt á eftir Jennifer Meadows frá Bretlandi sem kom í mark á 2:00,70.

Þrjár efstu í hverjum riðli komust áfram í undanúrslit og einnig þær sex sem náðu bestum tíma þar á eftir í öllum riðlunum samanlagt. Aníta var afar nærri því að komast inn á tíma en Meadows var síðust inn af þeim sex sem komust inn á tíma. Sumir riðlanna voru aðeins hægari en riðill Anítu og þannig dugði til dæmis að hlaupa á 2:01,72 mínútum til að komast áfram úr 5. riðli. Tími Anítu var sá 20. besti af 45 keppendum.

Eins og fyrr segir var þetta besta hlaup Anítu á árinu og jafnframt næstbesta hlaup hennar á ferlinum en Íslandsmet hennar frá 2013 er 2:00,49 mínútur. Hún var aðeins 1/100 úr sekúndu frá lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári.

Aníta hefur nú lokið keppni á HM. Ásdís Hjálmsdóttir keppir í spjótkasti í hádeginu á föstudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert