Aníta: „Gaman að upplifa þetta“

Aníta Hinriksdóttir kom í mark rétt á eftir Jennifer Meadows, …
Aníta Hinriksdóttir kom í mark rétt á eftir Jennifer Meadows, sem er lengst til hægri á mynd, en Meadows komst áfram í undanúrslitin. AFP

„Mér fannst ganga frekar vel í hlaupinu en það hefði verið gaman að komast áfram. Fyrir utan það er ég sátt við þetta,“ sagði Aníta Hinriksdóttir þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar til Kína í gær.

Hún hafði þá um nóttina að íslenskum tíma keppt í undanrásum 800 metra hlaups kvenna á heimsmeistaramótinu í Peking.

Aníta kom fimmta í mark í sjötta undanriðli á besta tíma sínum á árinu; 2:01,01 mínútu, sem var 20. besti tíminn af 45 keppendum. Þrjár efstu í hverjum af riðlunum sex komust áfram í undanúrslit og einnig þær sex sem náðu bestum tíma þar á eftir í öllum riðlunum samanlagt. Riðill Anítu var nokkuð hraður og þannig dugði til dæmis að hlaupa á 2:01,72 mínútum til að komast áfram úr 5. riðli.

„Riðillinn var svona temmilega hraður en ég var ágætlega heppin að lenda með Jennifer Meadows frá Bretlandi. Hún vill fara hratt en það hefði verið gaman að fara enn hraðar og sjá hvort ég hefði getað hangið með. En þetta var annars fínt, fannst mér,“ sagði Aníta, sem segir að stressið hafi ekki verið að flækjast fyrir sér í frumrauninni á heimsmeistaramóti fullorðinna.

„Eiginlega ekki, nema bara eins og nauðsynlegt er, held ég. Ég hafði engu að tapa í þessu, svo að spennustigið fannst mér mjög passlegt. Ég viðurkenni að ég var aðeins stressuð fyrir tímamismuninum en það gekk eiginlega vonum framar að venjast honum. Svo var ég heppin með veðrið, hitastigið var mjög passlegt í morgun og aðstæður góðar,“ sagði Aníta, sem hljóp klukkan rúmlega þrjú að nóttu að íslenskum tíma, um klukkan 11 að kínverskum tíma.

Sjá allt viðtalið við Anítu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert