Berglind og Elísabet úr leik

Gullverðlaun Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir glaðbeittar með gullverðlaunin …
Gullverðlaun Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir glaðbeittar með gullverðlaunin um hálsinn eftir sigur í strandblaki á Smáþjóðaleikunum í sumar. Styrmir Kári

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir hafa lokið keppni í EM U22 í strandblaki eftir tap gegn sterku lið Hollands í morgun. 

Stelpurnar náðu sér ekki á strik í byrjun leiks og lenti fljótlega undir. Bilið jókst þegar leið á í fyrstu hrinunni sem endaði 21:13 fyrir Hollandi. Seinni hrinan var betri hjá stelpunum. Leikurinn var jafn lengi vel en svo fóru þær hollensku að nýta sér reynsluna og spiluðu frábærlega. Hrinan endaði 21:14 og 2:0 í hrinum fyrir Hollandi. 

Berglind og Elísabet ganga sáttar frá mótinu þó svo að auðvitað vildu þær ná lengra. Liðið endaði í sætum 17-24 af þeim 32 liðum sem tóku þátt. Fyrir það fá þær 32 stig í baukinn sem nýtist þeim vonandi í nánustu framtíð. 

Einar Sigurðsson, þjálfari stelpnanna sagðist vera mjög stoltur af liðinu eftir þetta mót.

„Þetta er frábær árangur en auðvitað var svekkjandi að tapa leiknum áðan. Það að hafa unnið Noreg er mjög stórt og svo vorum við að spila við Þýskaland í riðlinum og Holland í morgun. Þetta eru stórþjóðir í blaki og við náðum að standa í t.d. þjóðverjunum,“ sagði Einar í samtali við bli.is. 

Tímabilinu er þar með lokið hjá Berglindi og Elísabet. Sumarið var gott hjá þeim þar sem gullið á Smáþjóðaleikunum stendur upp úr sem og árangurinn í EM U22 sem var að ljúka. Þá gekk liðinu vel í dönsku mótaröðinni. 

Berglind heldur til Danmerkur á ný um helgina til að spila blak í Odense í vetur. Elísabet verður áfram á Íslandi í vetur og mun leika með liði HK. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert