Eins og að slá teighögg í golfi á harðahlaupum

Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég hef ekki unnið með Ásdísi alla hennar ævi en ég er viss um að hún er í sínu allra besta standi núna. Andlega er hún mjög sterk og ég er vongóður um að hún komist í úrslitin. Hún þarf ekki nýtt Íslandsmet til þess,“ sagði Terry McHugh, hinn írski þjálfari Ásdísar Hjálmsdóttur, Íslandsmethafa í spjótkasti.

Ásdís keppir á HM í Peking í hádeginu í dag eins og nánar má lesa um í meðfylgjandi klausu hér á síðunni.

Terry hefur þjálfað Ásdísi frá ársbyrjun 2013 en fyrst um sinn var um eins konar fjarþjálfun að ræða, þar sem hann bjó í Sviss og Ásdís kom í heimsókn eina viku í mánuði. Ásdís fluttist svo til Sviss, þar sem hún hefur búið undanfarin misseri og æft undir handleiðslu Terrys, sem keppti á fernum Ólympíuleikum á sínum tíma og á írska metið í spjótkasti (82,75 metrar). Hann hefur því kynnst Ásdísi vel og veit hvað í henni býr en bendir á að í flókinni tæknigrein á borð við spjótkast sé aldrei á vísan að róða:

„Það má segja að þetta sé eins og að slá teighögg í golfi en þurfa að koma hlaupandi að boltanum. Maður getur verið eins vel undirbúinn og hægt er en það er engin trygging fyrir því að ná draumahöggi,“ sagði Terry, og líklega er það rétt nema menn heiti Happy Gilmore. Terry ítrekar að Ásdís geti vel náð í 12 manna úrslit í dag þrátt fyrir að vera í 22. sæti keppenda yfir bestan árangur á árinu og í 30. sæti yfir bestan árangur á ferlinum.

„Á svissneska meistaramótinu fyrir fáeinum vikum keppti Ásdís líka í kúluvarpi og kringlukasti og bætti þar besta árangur sinn í kúluvarpi um heilan metra. Það gefur skýrt til kynna hversu vel undirbúin hún er líkamlega. Hún er líka mjög vel undirbúin hvað tæknina varðar og hefur aldrei verið betur stödd síðan við byrjuðum að vinna saman,“ sagði Terry.

Sjá allt viðtalið við þjálfara Ásdísar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert