Gæti orðið líkur leikur

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Ómar

Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska landsliðsins í knattspyrnu, staðfesti á fundi með fréttamönnum í gær að Emil Hallfreðsson yrði ekki með Íslendingum í leiknum við Hollendinga í undankeppni Evrópumótsins á Amsterdam Arena-leikvanginum á fimmtudagskvöldið.

,,Læknaliðið telur að Emil sé ekki leikfær eftir að hafa fengið að vita niðurstöðu eftir myndatökuna og hann kemur ekki hingað til Amsterdam. Það er möguleiki á að hann komi til Íslands. Hann er tæpur fyrir leikinn á móti Kasakstan á sunnudaginn. Ég veit ekki hvort hann hefur orðið fyrir sambærilegum meiðslum áður,“ sagði Lars við Morgunblaðið í gær.

Betri fréttir eru af fyrirliðanum Aroni Einari Gunnarssyni, sem hefur glímt við meiðsli síðustu vikurnar. „Aron æfði í dag og þetta leit bara vel út hjá honum. Ég held að hann verði klár í slaginn,“ sagði Svíinn góðlátlegi.

Spurður hvers konar leik hann byggist við gegn Hollendingum sagði Lars:

„Ég held að hann geti orðið svolítið líkur leiknum á Laugardalvellinum í fyrra. Hollendingarnir munu örugglega hafa boltann og við verðum að fara varlega í varnarleiknum. Ég vona að við getum varist aðeins ofar á vellinum svo að við getum komist í betri stöðu þegar við vinnum boltann. Annars held ég að leikurinn muni þróast á mjög svipaðan hátt og fyrri leikurinn í Reykjavík. Í þeim skoruðum við tvö mörk en Hollendingar ekkert og við fengum líka fleiri færi en þeir,“ sagði Lars Lagerbäck.

Íslendingar tróna á toppi riðilsins með 15 stig þegar fjórir leikir eru eftir. Tékkar koma næstir með 13 stig, Hollendingar 10, Tyrkir 8, Lettar 3 og Kasakstan rekur lestina með 1 stig.

Landsliðið æfir einu sinni í dag en 13 af leikmönnum í liðinu voru í eldlínunni á sunnudaginn með liðum sínum og taka þarf mið af því að sögn landsliðsþjálfarans.

Verður þú ánægður með eitt stig úr þessum leik?

„Það fer eftir því hvernig leikurinn spilast. Ef við spilum vel og verðskuldum sigur verða það vonbrigði að vinna ekki en ef við spilum ekkert sérstaklega vel verð ég að sjálfsögðu ánægður með eitt stig. Ef maður er raunsær er jafntefli á útivelli á móti Hollandi góð úrslit fyrir okkur miðað við stöðuna í riðlinum. Við myndum þá halda Hollendingum fimm stigum á eftir okkur með níu stig eftir í pottinum og Hollendingar eiga eftir að spila við Tékka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert