Guðni sá þriðji besti frá upphafi

Guðni Valur Guðnason.
Guðni Valur Guðnason. mbl.is/iben

„Ég fann um leið og ég sleppti kringlunni að þetta yrði langt kast," sagði ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason úr ÍR, í samtali við mbl.is fyrir stundu en þá hafði hann nýlokið við að kasta kringlunni 63,50 metra á kastmóti FH á Kaplakrikavelli. Þar með skaust Guðni upp í þriðja sæti á afrekalista íslenskra kringlukastara frá upphafi.

Aðeins Íslandsmethafinn, Vésteinn Hafsteinsson, úr HSK, með 67,64 metra, og Erlendur Valdimarsson, ÍR, með 64,32 metra hafa kastað tveggja kílóa karlakringlunni lengra. Guðni Valur skaut m.a. annars þeim Óskari Jakobssyni, Eggerti Bogasyni, Magnúsi Aroni Hallgrímssyni og Óðni Birni Þorsteinssyni, aftur fyrir sig og varð um leið sjötti Íslendingurinn til þess að rjúfa 60 metra múrinn í kringlukasti.

Guðni Valur, sem hefur aðeins æft kringlukast undir stjórn Péturs Guðmundssonar Íslandsmethafa í kúluvarpi í rúmt ár, bætti sinn fyrri árangur um 4,90 metra í dag. „Ég hef beðið eftir þessu kasti síðan ég bætti mig síðast. Ég vissi og fann að ég átti mikla bætingu inni," sagði Guðni Valur við mbl.is og vildi ekki útiloka að hann ætti enn meira inni.

Eins og áður segir þá hefur Guðni Valur, sem verður tvítugur 11. október, aðeins æft kringlukast í rúmt ár og hefur á þeim tíma bætt sig um á annan tug metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert