Íslendingar á palli á Evrópuleikum

María Bragadóttir stóð sig frábærlega á Evrópuleikunum í taekwondo sem …
María Bragadóttir stóð sig frábærlega á Evrópuleikunum í taekwondo sem haldnir voru á dögunum. Ljósmynd / umfi.is

Um helgina kepptu þrír Íslendingar á Evrópuleikum 35 ára og eldri í taekwondo í Frakklandi og komust þeir allir á verðlaunapall.  

María Bragadóttir úr Aftureldingu hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki eftir að hafa unnið sinn fyrsta bardaga en tapað naumlega í undanúrslitum.

Arnar Bragason, einnig úr Aftureldingu, er einn sigursælasti keppandi landsins í íþróttinni lenti í öðru sæti eftir að hafa tapað naumlega í úrslitum í æsispennandi bardaga.  

Arnar á að baki glæstan feril með landsliði Íslands og hefur nú sannað sig sem einn allra besti taekwondomaður eldri en 35 ára í Evrópu. 

Björn Þorleifur Þorleifsson, sem hefur um langa hríð verið einn sterkasti taekwondomaður heims, gerði sér lítið fyrir og vann alla sína bardaga með miklum yfirburðum og landaði Evróputitlinum með glæsibrag.  Björn Þorleifur stefnir á að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum á næsta ári og þessi sigur er honum mikið og gott veganesti á þeirri vegferð.

Það er mikil gróska í taekwondo á Íslandi og nú í sumar kepptu keppendur úr ungmennalandsliðum á Evrópumótum og vann Ísland til tveggja Evrópumeistaratitla í sumar í flokki ungmenna, og nú bætist enn einn alþjóðlegi stórtitillinn í safnið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert