Léttist á elleftu stundu

Helga Guðmundsdóttir,
Helga Guðmundsdóttir, Ljósmynd/Sigurjón Pétursson

„Ég stefndi á sigur en lyfti aðeins minna en ég ætlaði mér, ég var með aðrar tölur í hausnum þegar ég hugsaði um þetta mót,“ sagði Helga Guðmundsdóttir í samtali við Morgunblaðið, en hún var stigahæst kvenna á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór á Seltjarnarnesi um helgina.

Mikil ánægja var með mótið þar sem fjölmörg Íslandsmet féllu, en í fyrsta sinn á Íslandi var keppt á tveimur pöllum samtímis í greininni.

Helga lyfti mest 117,5 kg í hnébeygju, 92,5 kg í bekkpressu og 150 kg í réttstöðulyftu og eru allar þyngdirnar Íslandsmet í hennar aldursflokki. Í klassískum kraftlyftingum er keppt án útbúnaðar, og var það í fyrsta sinn sem Helga keppir án hans. Hún keppti í -63 kg flokki, en þurfti heldur betur að leggja mikið á sig til þess að geta verið í flokknum. Við skulum gefa henni orðið:

„Ég var þremur kílóum of þung viku fyrir mótið og þurfti því að létta mig. Ég borðaði lítið og reyndi að losa vökva svo ég var svolítið orkulaus þegar mótið byrjaði. Þegar ég mætti á keppnina var ég 63,5 kíló og þurfti að ná mér neðar. Ég fór því í sal þarna til hliðar, klæddi mig í svartan ruslapoka og gyrti í buxurnar, fór í aðra peysu og buxur og hljóp í fjörutíu mínútur. Tuggði svo tyggjó og skyrpti í flösku, bara til að reyna að losa eins mikinn vökva og ég gæti,“ sagði Helga, en árangur hennar er ekki síst athyglisverður fyrir þær sakir að hún byrjaði ekki að stunda íþróttina fyrr en á síðasta ári eftir að hafa verið í crossfit.

 Nánar er rætt við Helgu og fjallað um Íslandsmeistaramótið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert