Knapi dæmdur í fjögurra ára bann

mbl.is/ÞÖK

Dómstóll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) hefur dæmt knapann Þorvald Árna Þorvaldsson í fjögurra ára bann fyrir brot á lyfjalögum eftir að amfetamín fannst í blóði hans. 

Dómurinn var kveðinn upp 1. október sl.

„Kærði, Þorvaldur Árni Þorvaldsson, er dæmdur til 4 ára óhlutgengis, til þátttöku í allri starfsemi sem fram fer á vegum ÍSÍ, sambandsaðila þess eða félaga eða deilda innan þeirra, frá 12. júní 2015 að telja. Árangur kærða í keppni frá og með 8. maí 2015 og til og með 12. júní 2015 skal ógiltur,“ segir í dómsorði.

Lyfjaráð ÍSÍ kærði Þorvald 1. júlí sl. fyrir lyfjamisnotkun og var þess krafist að hann yrði dæmdur til 8 ára óhlutgengis til þátttöku í allri starfsemi sem fram færi á vegum ÍSÍ, sambandsaðila þess eða félaga eða deilda innan þeirra, frá 12. júní. Auk þess var krafist að árangur hans í Reykjavíkurmeistaramóti Fáks sem haldið var 6-10. maí 2015 væri ógiltur í samræmi við lög ÍSÍ um lyfjamál.

Kvaðst ekki nota amfetamín til árangursbætingar

Fram kemur í gögnum málsins, að Þorvaldur hafi gengist undir lyfjaeftirlit eftir fortölur aðstandenda og lét í té þvagsýni sem bæði voru send til greiningar í Svíþjóð. Samkvæmt niðurstöðum greininga var að finna örvandi efnið amfetamín í báðum þvagsýnum kærða. Amfetamín er í flokki S6a á bannlista WADA yfir efni og aðferðir sem bannað er að nota í keppni.

Fram kemur, að Þorvaldur hafi átt við áfengisvanda að etja og fallið á mánudeginum fyrir keppni og verið að fram á þriðjudag. „Kærði kveðst nota áfengi í miklu magni þegar hann fellur og einnig kveðst hann nota amfetamín til að geta drukkið lengur. Kveðst ekki hafa verið að hugsa neitt um keppnina þegar hann var í þessu ástandi. Kveðst gera sér grein fyrir því að hann þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna. Kveðst ekki nota amfetamín til árangursbætingar,“ segir í dómnum.

Dómstóllinn segir að Þorvaldur hafi fært fram trúverðug rök fyrir því að hann hafi ekki neytt amfetamíns í þeim tilgangi að bæta árangur sinn í keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert