Crossfit-stjörnur horfa til Ríó

Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Tanja Davíðsdóttir, heimsmeistari í Crossfit, er í íslenska landsliðinu í ólympískum lyftingum sem hefur sett stefnuna á að koma íslenskri lyftingakonu í fyrsta sinn á Ólympíuleika, þegar þeir fara fram í Ríó á næsta ári.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Auk Katrínar Tönju eru í landsliðinu þær Þuríður Erla Helgadóttir, Hjördís Ósk Óskarsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir. Nöfnin eru flestum kunn vegna afreka þeirra í Crossfit á síðustu árum, en nú vinna þær saman að því markmiði að ná einu Ólympíusæti fyrir Íslands hönd í lyftingum.

Hópurinn heldur á HM í Houston í Bandaríkjunum í nóvember og er það fyrsta skrefið í átt að því að ná Ólympíusæti. Raunhæfi möguleikinn á að ná slíku sæti felst svo í að liðið nái einu af sex efstu sætum á EM á næsta ári, af þeim þjóðum sem ekki komast á ÓL í gegnum HM.

Verður flott í reynslubankann

Katrín Tanja segir það ekki hafa átt sér langan aðdraganda að hópurinn skuli nú vera á leið á HM, enda ekki verið eitt af hennar markmiðum að ná miklum frama í lyftingum:

„Nei svo sem ekki. Mín helstu markmið og æfingaáherslur liggja í Crossfittinu og lyftingar eru auðvitað stór hluti af því, svo þetta hefur svona tvinnast vel saman hjá mér. Ég hafði svosem ekki verið að stefna neitt sérstaklega að þessu móti en ég er búin að ná lágmörkunum fyrir það og tækifærið kom upp. Það að fá að keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti er mikill heiður og flott tækifæri sem ég ákvað í sameiningu við þjálfarann minn að taka, og þetta verður flott í reynslubankann,“ sagði Katrín Tanja við mbl.is. Hún tekur undir að aðalmarkmiðið með því að keppa á HM, sé að koma Íslendingi á Ólympíuleikana:

„Já, í rauninni. Við stelpurnar eigum sem lið, möguleika á að vinna sæti fyrir eina af okkur á Ólympíuleikana. Til þess að mega keppa þar þarf að hafa keppt á tveimur stórmótum og þau einu sem eftir eru, eru Heimsmeistaramótið og svo Evrópumótið í Apríl 2016. Evrópumótið er það mót sem mun ákveða hver okkar fær sætið en við þurfum að taka þátt á HM til þess að eiga möguleikann á því,“ sagði Katrín Tanja. En er það raunhæft að komast til Ríó?

Katrín Tanja með 85 kg í snörun á Íslandsmeistaramótinu í …
Katrín Tanja með 85 kg í snörun á Íslandsmeistaramótinu í maí. Ljósmynd/Haraldur Leví Jónsson

„Ég hef ekki skoðað það sjálf, en Lyftingasambandið er með tölurnar yfir þetta og við höfum talað saman um þetta. Við eigum raunverulega og góða möguleika á því að vinna okkur inn keppnissæti í Ríó!“

Einbeitir sér áfram að Crossfit

Katrín Tanja segir að þrátt fyrir þátttökuna á HM muni hún áfram leggja aðaláherslu á Crossfit, enda stendur hún þar fremst í flokki:

„Mín helstu markmið og meginfókus munu áfram liggja í Crossfittinu - þar er ég að keppast um að vera best í heimi, á meðan á stórmótum eins og þessum í lyftingum er ég í raun bara að keppast við sjálfa mig. Bestu stelpurnar þarna eru svo langt á undan okkur að ég sé ekki möguleika á að vera í neinni toppbaráttu. Ég mun hins vegar ýta fókusnum örlítið meira í áttina að ólympísku lyftunum þegar um 2 vikur eru í mót. Þá mun ég minnka úthaldsæfingar og æfingar sem munu þreyta mig og draga úr sprengikrafti, og taka meiri lyftingar en ég er vön. Það getur alveg verið jákvætt og það geta komið góðar bætingar í lyftingunum hjá mér út frá því,“ sagði Katrín Tanja, en ljóst er að keppinautar hennar á HM í næsta mánuði búa að miklu forskoti í ljósi þess að þeir einbeita sér alfarið að árangri í ólympískum lyftingu:

„Jú algjörlega. Stelpurnar sem einbeita sér algjörlega að lyftingunum eru bestar á því sviði og það er auðvitað ekki raunhæft að ætlast til að vera í keppni við stelpur sem setja 100% fókus í þetta. Það er ekki sanngjarnt gagnvart okkur sjálfum né þeirra vinnu sem þær setja í þetta. Þær einbeita sér einungis að þessu og vilja hámarka styrkinn sinn, snerpu og „power output“ og eru í tipptopp standi þar. Við CrossFit-stelpurnar erum alltaf að reyna að vera góðar í öllu; vera hraðar en á sama tíma góðar í úthaldinu, hafa gott „power output“ en á sama tíma getað unnið lengi með mikla þyngd svo við munum svo sem aldrei ná að „hámarka“ neitt ákveðið svið án þess að taka frá einhverju öðru. Ég er með mín markmið fyrir þetta mót og vil koma útúr þessu reynslunni ríkari með engar eftirsjár. Svo lengi sem útkoman verður mitt allra besta þá verð ég sátt. Ég er hrikalega spennt að takast á við þetta verkefni með stelpunum!“

Ítarleg umfjöllun um landsliðið sem keppir á HM, og leiðina á ÓL í Ríó, er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert