Fjórir íslenskir Norðurlandameistarar

Íslenski hópurinn sem stóð svo vel fyrir sínu í Noregi …
Íslenski hópurinn sem stóð svo vel fyrir sínu í Noregi um helgina. Ljósmynd/LSÍ

Ísland eignaðist fjóra Norðurlandameistara í ólympískum lyftingum í Haugasundi í Noregi um helgina.

Lilja Lind Helgadóttir úr LFG fagnaði titli á mótinu, þriðja árið í röð, en hún vann -69 kg flokk stúlkna (20 ára og yngri). Freyja Mist Ólafsdóttir úr LFR vann -75 kg flokk stúlkna og varði þar með titil sinn frá því í fyrra. Lilja lyfti samtals 148 kg, 68 í snörun og 80 í jafnhendingu, og Freyja 150 kg (70+80).

Einar Ingi Jónsson úr LFR vann -69 kg flokk pilta en hann lyfti 222 kg (98 + 124). Guðmundur Högni Hilmarsson vann svo -85 kg flokk pilta með því að lyfta 271 kg (124 + 147). Guðmundur Högni bætti eigin Íslandsmet í bæði snörun og samanlögðu, frá því á EM unglinga í síðasta mánuði.

Fleiri Íslendingar unnu til verðlauna á mótinu. Guðmundur Steinn Gíslason Kjeld úr LFR fékk silfur í -69 kg flokki pilta. Jón Elí Rúnarsson úr LFR fékk brons í -105 kg flokki pilta og Arnór Gauti Haraldsson brons í -77 kg flokki drengja (17 ára og yngri).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert