SA kom til baka og heldur toppsætinu

Hart barist í leik Bjarnarins og SA í kvöld.
Hart barist í leik Bjarnarins og SA í kvöld. Árni Sæberg

SA Víkingar báru í kvöld sigurorð af Birninum með fjórum mörkum gegn þremur í Hertz-deild karla í íshokkí en leikurinn fór fram í Egilshöll.

Greinilegt var að leikmenn Bjarnarins ætluðu að selja sig dýrt því hefði leikurinn tapast voru möguleikar liðsins á að komast í úrslitakeppnina í febrúar orðnir harla litlir. Heimamenn sóttu meira í upphafi en án þess þó að ná að skora í fyrstu lotunni.

Strax í upphafi annarrar lotu kom unglingalandsliðsmaðurinn Edmunds Induss þeim yfir. Fátt markvert gerðist í töluverðan tíma eftir það nema hvað leikmenn liðanna skiptust á að heimsækja refsiboxið. Einum fleiri bætti Sigursteinn Atli Sighvatsson við marki fyrir Björninn og áður en lotan var úti hafði Úlfar Jón Andrésson komið þeim í vænlega 3:0 stöðu.

Víkingar hófu hinsvegar stórsókn. Jón Benedikt Gíslason  leikmaður Víkinga kom þeim inn í leikinn með tveimur mörkum um miðja þriðju lotu og Mario Mjelleli jafnaði síðan metin tæpum fimm mínútum fyrir lotulok. Hvorugt liðið náði að skora sem eftir lifði leiks og því framlengt. Spilandi þjálfari Víkinga, Jussi Sipponen, sá um að aukstigið yrði þeirra en markið kom þegar rúmlega tuttugu sekúndur voru eftir af framlengingunni.

Með sigrinum halda Víkingar toppsæti deildarinnar en fimm stig eru í Esju sem koma næstir.

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:
Sigursteinn Atli Sighvatsson 1/1
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Edmunds Induss 1/0
Falur Birkir Guðnason 0/1
Jón Árni Árnason 0/1
Elvar Freyr Ólafsson 0/1

Refsingar Bjarnarins: 26 mínútur

Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Jón Benedikt Gíslason 2/1
Jussi Sipponen 1/1
Mario Mjelleli 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/2
Orri Blöndal 0/1

Refsingar SA Víkinga: 12 mínútur.

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert