Eaton og Dibaba best á árinu

Genzebe Dibaba.
Genzebe Dibaba. AFP

Tugþrautarkappinn Ashton Eaton frá Bandaríkjunum og hlaupakonan Genzebe Dibaba frá Eþíópíu voru í gær útnefnd besta frjálsíþróttafólk ársins 2015 af Alþjóða frjálsíþróttasambandinu.

Bæði settu þau Eaton og Dibaba heimsmet á árinu. Eaton bætti eigið met í tugþraut, en það var orðið þriggja ára gamalt, þegar hann varð heimsmeistari í Peking í ágúst. Hann er fyrsti tugþrautarkappinn sem hlýtur nafnbótina frjálsíþróttakarl ársins.

Dibaba bætti 22 ára gamalt heimsmet í 1.500 metra hlaupi í Mónakó í sumar, og varð svo heimsmeistari í greininni af öryggi í ágúst. Hún tók einnig brons í 5.000 metra hlaupi á HM, og setti heimsmet í 5.000 metra hlaupi innanhúss.

Auk Eatons voru Usain Bolt og þrístökkvarinn Christian Taylor tilnefndir í karlaflokki. Dafne Schippers og sleggjukastarinn Anita Wlodarczyk voru tilnefndar í kvennaflokki.

Japani og Kanadabúi vonarstjörnur

IAAF verðlaunaði einnig efnilegasta frjálsíþróttafólk heimsins í dag. Abdul Hakim Sani Brown frá Japan er 16 ára gamall og setti mótsmet þegar hann varð heimsmeistari ungmenna í 100 og 200 metra hlaupi. Hann hljóp 100 metrana á 10,28 sekúndum og 200 metra á 20,34 sekúndum. Sani Brown þótti efnilegastur karla.

Candace Hill frá Bandaríkjunum þótti efnilegust kvenna. Hún er 16 ára gömul og varð líkt og Sani Brown heimsmeistari ungmenna í 100 og 200 metra hlaupum. Hún hljóp 100 metrana best á 10,98 sekúndum á árinu, og 200 metrana á 22,43 sekúndum.

Bart Bennema, hollenskur þjálfari Dafne Schippers, var valinn þjálfari ársins.

Ashton Eaton setti nýtt heimsmet í tugþraut.
Ashton Eaton setti nýtt heimsmet í tugþraut. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert