Frábær árangur á ísnum

Emilía Rós stóð uppi sem sigurvegari.
Emilía Rós stóð uppi sem sigurvegari. mbl.is/Eggert

Emilía Rós Ómarsdóttir, SA, stóð uppi sem sigurvegari í Unglingaflokki A á Íslandsmóti Skautasambands Íslands. Fékk hún 102.31 stig fyrir æfingar sínar en aldrei hefur íslenskur skautari rofið 100 stiga múrinn.

Agnes Dís Brynjarsdóttir, Skautafélaginu Birninum, hafnaði í öðru sæti en hún fékk 99.91 stig fyrir sínar æfingar. Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, hafnaði í þriðja sæti en hún hlaut 93.32 stig fyrir æfingar sínar.

Júlía Grétarsdóttir, Birninum, var eini keppandinn að þessu sinni í kvennaflokki A. Hún sýndi góðar æfingar og fékk fyrir þær 88.93 stig.

Skautafélag Akureyrar átti stúlkur í efstu 3 sætum í Stúlknaflokki A. Marta María Jóhannsdóttir hefur verið sigursæl á síðustu mótum og varð Íslandsmeistari líkt og í fyrra með 75.57 stig. Mikil keppni hefur verið milli þeirra Aldísar Köru Bergsdóttur og Ásdísar Örnu Fen Bergsveinsdóttur um annað og þriðja sætið. Aldís varð hlutskarpari í þetta sinn með 69.84 stig og Ásdís hafnaði í þriðja sæti með 65.44 stig. Herdís Birna Hjaltalín, SB, átti sömuleiðis stórgott mót og hafnaði í fjórða sæti eftir að hafa verið þriðja eftir stutta prógrammið í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert