Hiti og hungur

Bjarnarmenn fagna einu marka sinna í kvöld og Andri Helgason …
Bjarnarmenn fagna einu marka sinna í kvöld og Andri Helgason er annar frá hægri. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Andri Helgason, leikmaður Bjarnarins, lenti í smá slagsmálum við nafna sinn Mikaelsson þegar Björninn lagði SA-Víkinga í Hertz-deildinni í íshokkí á Akureyri í kvöld.

Hann gat brosað breitt í leikslok og hristi bara hausinn yfir atvikinu. Björninn vann 8:5 í leik sem var mjög jafn og skemmtilegur. En hvað gerði gæfumuninn?

„Það var bara meiri hiti í okkur og meira hungur. Við erum búnir að æfa vel upp á síðkastið eftir nokkra ósigra í röð og það var allt undir fyrir okkur í þessum leik. Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og þá verðum við að vinna sem flesta leiki. Ég tel sigurinn í kvöld þann allra mikilvægasta hjá okkur á tímabilinu. Við urðum að vinna og rífa okkur upp til að nálgast toppsætin tvö. Tap hefði nánast gert út um þetta fyrir okkur.

Við bættum við okkur mönnum fyrir jól og þeir eru að skila hellinga af stigum fyrir liðið. Svo kemur einn í viðbót fyrir næsta leik þannig að hópurinn verður þéttari og sterkari. Þessi deild er mjög jöfn og það eiga öll liðin séns. Ef eitthvert lið nær að vinna nokkra leiki í röð þá flýgur það upp töfluna og eins og staðan er núna þá getur all gerst. Við eigum sjö leiki eftir, þar af þrjá við Esjuna sem er sjö stigum á undan okkur í 2. sætinu. Það verður barist í öllum leikjum sem eftir eru, en leikirnir við þá verða svakalegir og þar verður barist til síðasta svitadropa‘‘ sagði Andri sem jafnframt vildi hrósa Bjarnarstelpunum fyrir góðan stuðning úr stúkunni. ,,Ég heyrði mjög vel í þeim og er mjög ánægður með þær, kannski gerði stuðningur þeirra gæfumuninn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert