SA Víkingar skelltu SR-ingum

SA Víkingar, t.h. höfðu ástæðu til að fagna í kvöld.
SA Víkingar, t.h. höfðu ástæðu til að fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Einn leikur fór fram í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld en þá mættust Skautafélag Reykjavíkur og SA Víkingar. Leiknum lauk með sigri Víkinga sem gerðu sjö mörk gegn þremur mörkum SR-inga.

Lið SR-inga kom nokkuð á óvart á síðustu leiktíð þegar það komst í úrslit á móti SA Víkingum. Þetta tímabilið hefur hinsvegar verið þeim öllu erfiðara en liðið missti sænska varnarmanninn Viktor Anderson frá sér en hann var einna allra besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð. Norðanmenn á hinn bóginn virðast einsog kötturinn, eiga sér níu líf, því ár eftir ár tekst þeim að ná saman góðu liði en þeir sitja nú í efsta sæti Hertz-deildarinnar.

Það var ágætis jafnræði með liðunum fyrstu tíu mínútur leiksins. Spilandi þjálfari Víkinga Jussi Sipponen kom þeim yfir fljótalega í lotunni en Michal Danko jafnaði metin skömmu síðar fyrir heimaliðið. Víkingar bættu við þremur mörkum áður en lotan var úti og fóru inn í leikhlé í vænlegri 1:4 stöðu.

Þrátt fyrir að vera töluvert sókndjarfari í annarri lotu náðu Víkingar aðeins að bæta við einu marki en þar var á ferðinni Andri Már Mikaelsson. Mario Mjelleli kom gestunum í 1  - 6 fljótlega í þriðju og síðustu lotunni. SR-ingar náðu hinsvegar að rétta sinn hlut þegar langt var liðið á lotuna með því að gera tvö mörk með tuttugu sekúndna millibili. Það var hinsvegar fyrirliði Víkinga, Andri Már Mikaelsson sem átti lokaorð leiksins rétt mínútu fyrir leikslok.

Næsti leikur í Hertz deild karla verður á morgun en þá mætast Björninn og UMFK Esja í Egilshöllinni og hefst sá leikur klukkan 18.30.

Mörk/stoðsendingar SR:
Robbie Sigurðsson 1/2
Michal Danko 1/0
Bjarki Reyr Jóhannesson 1/0
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Milan Mach 0/1

Refsingar SR: 6 mínútur

Mörk/stoðsendingar Víkinga:
Mario Mjelleli 2/2
Jussi Sipponen 2/0
Andri Már Mikaelsson 2/1
Jón B. Gíslason 1/1
Halldór Ingi Skúlason 0/1
Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Sigurður S. Sigurðsson 0/1
Sigurður Freyr Þorsteinsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1

Refsingar Víkinga: 8 mínútur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert