Fyrsti fullkomni leikurinn í keilu

Hafdís Pála Jónasdóttir.
Hafdís Pála Jónasdóttir. Ljósmynd/Heiðar Rafn Sverrisson.

Hafdís Pála Jónasdóttir, Keilufélagi Reykjavíkur, spilaði fyrr í dag fullkominn leik í keilu eða 300 pinna á Íslandsmóti einstaklinga sem fram fer í Keiluhöllinni Egilshöll.

Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskur kvenkeilari nær þessum merka áfanga og er þar um leið Íslandsmet hjá konum í einum leik. Gamla metið hefur staðið ansi lengi eða frá 9. febrúar 2004 en þá spilaði Sigfríður Sigurðardóttir úr KFR 290 leik í Keilu í Mjódd.

Í Keiluhöllinni Egilshöll fer fram um helgina forkeppni á Íslandsmóti eintaklinga í keilu 2016 en keppt er bæði í karla- og kvennaflokki.

Leiknir eru 12 leikir í forkeppni og fara 12 efstu áfram í milliriðil sem verður spilaður í Egilshöll annað kvöld kl. 19. Úrslit fara svo fram á sama stað kl. 19 á þriðjudaginn. Aðgangur inn í Egilshöll er ókeypis og eru áhugasamir hvattir til að mæta og fylgjast með bestu keilurum landsins keppa um Íslandsmeistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert