Mikilvægur sigur ÍBV norðan heiða

Drífa Þorvaldsdóttir skoraði 11 mörk fyrir ÍBV í dag.
Drífa Þorvaldsdóttir skoraði 11 mörk fyrir ÍBV í dag. mbl.is/Kristinn

ÍBV sigraði KA/Þór, 29:25, í Olís-deild kvenna í handknattleik á Akureyri í dag. Eyjastúlkur eru þar með áfram í 3. sæti deildarinnar, nú með 32 stig en KA/Þór er með 7 stig í 11. sæti.

KA/Þór var með eins marks forystu að loknum fyrri hálfleik, 15:14. Gestirnir frá Vestmannaeyjum gáfu heldur í eftir leikhléið og sigruðu að lokum með fjögurra marka mun. Drífa Þorvaldsdóttir var markahæst í liði ÍBV með 11 mörk en Steinunn Guðjónsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoruðu 6 mörk hvor fyrir KA/Þór.

HK sigraði FH, 21:18, í Hafnarfirði. Hafnfirðingar voru með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 11:9, en HK spýtti heldur betur í lófana í síðari hálfleik og landaði að lokum þriggja marka sigri.

Þórhildur Braga Þórðardóttir skoraði 9 mörk og var markahæst í liði HK. Sigrún Jóhannsdóttir, Steinunn Snorradóttir og Hildur Marín Andrésdóttir voru markahæstar í liði FH með 4 mörk. Eftir leikinn er HK áfram í 9. sæti, nú með 13 stig en FH er í 12. sæti með 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert