Naumur sigur norðanmanna

Ingvar Jónsson landsliðsfyrirliði skoraði eitt marka SA og á hér …
Ingvar Jónsson landsliðsfyrirliði skoraði eitt marka SA og á hér í höggi við Ævar Björnsson markvörð SR. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Skautafélag Akureyrar vann nauman sigur á Skautafélagi Reykjavíkur, 4:3, þegar liðin mættust í Skautahöllinni í Laugardal í gærkvöld, í næstsíðustu umferð Hertz-deildar karla í íshokkí.

SA hafði þegar tryggt sér efsta sætið í deildinni og heimaleikjaréttinn í úrslitaeinvíginu en SR endar í fjórða og síðasta sætinu.

Leikurinn var samt hnífjafn en SA tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum í þriðja leikhluta. Mario Mjelleli skoraði tvö marka norðanmanna, Sigurður Reynisson og Ingvar Jónsson eitt hvor. Daníel Magnússon, Bjarki Jóhannesson og Miloslav Racansky skoruðu mörk SR.

Fyrir lokaumferðina á þriðjudaginn er SA með 45 stig, Esja 38, Björninn 35 og SR 20 stig. Þar ræðst hvort Esja eða Björninn nær öðru sætinu og leikur  til úrslita gegn SA um Íslandsmeistaratitilinn.

Esju dugir stig gegn SR í Laugardalnum til að komast í úrsliti í fyrsta skipti, en tapi liðið myndi Björninn ná öðru sætinu með sigri gegn SA á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert