„Óþarfi að tapa þessu“

Frá viðureign SA og Esju.
Frá viðureign SA og Esju. mbl.is/Golli

Þórhallur Viðarsson er margreyndur í íshokkíinu en hann er nú að spila sína fyrstu úrslitakeppni í búningi Esjunnar. Hann var áður með SR og hefur háð margar rimmurnar gegn Akureyringunum í SA.

Eða eins og hann sagði sjálfur: ,,Maður hefur átt þær nokkrar og er bara vanur því að spila við þá í úrslitum. Þessi lið eru tvö bestu liðin í deildinni og leikir okkar í vetur hafa verið mjög jafnir. Þetta verður hörku úrslitakeppni og gaman fyrir okkur að vera í henni. Mér finnst deildin sjaldan eða aldrei hafa verið skemmtilegri eftir að Esjan bættist við og þetta er allt á réttri leið. Leikirnir eru fleiri og allir geta unnið alla. Það var óþarfi að tapa þessu en við verðum að klára tímabilið af hörku og svara fyrir okkur.“

Næsti leikur verður spilaður í Laugardalnum í Reykjavík en þar hefur SA ekki tapað leik síðan í september er þeir töpuðu gegn Esju. Síðan þá hafa Akureyringar unnið þrjá leiki gegn þeim grænklæddu í Laugardalnum. Þórhallur hefur ekki áhyggjur af þeirri tölfræði.

,,Við ætlum að reyna að breyta þessu og vinna næsta leik. Við tókum tvo leiki hérna fyrir norðan svo það er allt til í þessu. Ég hlakka bara til framhaldsins. Það eru allir í liðunum komnir til að spila hokkí og þótt við eigum að teljast minna liðið, bara búnir að vera í deildinni í tvö ár, þá ætlum við að leggja allt í þetta og stimpla okkur almennilega inn" sagði Þórhallur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert