Sannfærandi sigur á Tyrkjum

Kvennalandsliðið í íshokkí fyrir leikinn í dag.
Kvennalandsliðið í íshokkí fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/ihi

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí hóf heimsmeistaramótið í íshokkí á besta mögulega hátt með því að sigra Tyrki á sannfærandi hátt, 7:2, í fyrstu umferðinni í Jaca á Spáni í dag.

Birna Baldursdóttir og Flosrún Vaka Jóhannesdóttir komu Íslandi í 2:0 með mörkum á fyrstu fimm mínútum leiksins og þannig var staðan eftir fyrsta leikhluta.

Tyrkir gerðu sér hinsvegar litið fyrir og skoruðu tvö mörk á 12 sekúndum á annarri mínútu í öðrum leikhluta og staðan var skyndilega orðin 2:2.

Diljá Björgvinsdóttir og Flosrún Vaka svöruðu fyrir Ísland áður en öðrum leikhluta lauk og staðan þá 4:2 fyrir Ísland.

Flosrún gerði sitt þriðja mark og þær Sunna Björgvinsdóttir og Guðrún Viðarsdóttir bættu við mörkum áður en yfir lauk í þriðja og siðasta leikhluta, 7.2.

Þetta var fyrsti leikurinn í 2. deild B en síðar í dag leikur Mexíkó við Ástralíu og Spánn við Nýja-Sjáland.

Ísland mætir Nýja-Sjálandi á morgun, Spáni á fimmtudagskvöldið, Mexíkó á laugardaginn og Ástralíu í lokaumferðinni á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert