Allt getur gerst í þessum bardaga

Gunnar Nelson er staðráðinn í að komast aftur á sigurbraut …
Gunnar Nelson er staðráðinn í að komast aftur á sigurbraut eftir tapið gegn Demian Maia í desember. AFP

Gunnar Nelson kveðst sannfærður um að hann geti stöðvað sigurgöngu Rússans Albert Tumenov þegar þeir mætast í átthyrningnum á UFC-kvöldinu í Amsterdam á sunnudaginn.

Tumenov hefur unnið fimm síðustu bardaga sína og alls 13 af síðustu 14 bardögum. Þessi 24 ára gamli kappi er gríðarlega höggþungur og hefur unnið 11 bardaga með rothöggi. Gunnar hefur unnið 14 bardaga á ferlinum en tapað tveimur af síðustu þremur, gegn Demian Maia í desember og Rick Story í október 2014. Hann hefur fulla trú á sigri á sunnudag, og að hann geti komið í veg fyrir að þung högg Tumenovs ráði úrslitum:

„Já, ég er viss um það,“ sagði Gunnar við Starsport. „Ég tel að ég muni geta fundið leið til að vinna hann, og leyst þessa gátu. Það skiptir ekki máli hvort það verður með hnefahöggum eða fangbrögðum. Ég held að ég sé alltaf að bæta mig sem alhliða bardagaíþróttamaður,“ sagði Gunnar, sem útilokar ekki að ná í sigur með rothöggi:

„Á pappírunum virðist augljóst að besta leiðin að sigri sé að fara þarna, taka hann niður og berja hann á gólfinu. En maður veit aldrei. Maður fer þarna inn og finnur orkuna hjá andstæðingnum, og maður verður að bregðast við aðstæðum. Maður er með sínar hugmyndir og sína áætlun, og hún er alltaf til staðar, en maður verður líka að byggja þetta á tilfinningunni. Annars kemst maður ekki langt,“ sagði Gunnar.

„Ég sé fyrir mér alls konar aðstæður sem geta komið upp. Ég get alveg séð fyrir mér að taka hann niður strax og klára bardagann snemma. En ég get líka séð fyrir mér að hann dragist á langinn. Í raun gæti allt gerst. Ég hlakka til að nota einhverjar af mínum aðferðum og nýta tækifærið þegar það gefst,“ sagði Gunnar, sem telur afar mikilvægt fyrir sig að komast aftur á sigurbraut:

„Það er mjög mikilvægt. Maður verður að koma sér aftur inn í baráttuna. Næsti bardagi er alltaf sá mikilvægasti,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert